Eldhússtrix

Pegasus er búinn að trixa eldhúsið mitt svo nú get ég lokað skáp sem annars stóð alltaf opinn. Þessi maður gerir allt fyrir mig.

Skemmtilegar vikur framundan. Hitti systtkini mín um helgina, búin að plana kvöld með Darra (sem ég hef varla hitt síðan á jólunum) Sigrún á stórafmæli og svo er að hefjast frönsk kvikmyndahátíð, einmitt á þessum rólega árstíma. Ég sé fram á að geta flutt lögheimilið mitt í bíó. Já og svo á ég gjafakort í Þjóðleikhúsið. Kannski maður fari að skoða hvað er í boði þar.

Nýtrú

Anna: Ég sá Jesus Crist Superstar og allt í einu áttaði ég mig á því að eftir 50-100 ár verða fígúrur eins og Ophra Winfrey og Dr. Phil tekin í dýrðlingatölu. Fólk er svo sjúkt í persónudýrkun sinni.
Eva: Það er svosem skiljanlegt að fólk dýrki gaur sem breytti vatni í vín. Halda áfram að lesa

Uncanny

Einu sinni elskaði ég mann svo heitt að ég lokaði vefbókinni minni til að geðjast honum. Ef einhver annar hefði sagt mér að hann hyggðist gera það sama hefði ég sagt viðkomandi að það væri sjúkt og rangt og að sá sem væri tilbúinn til að þyggja slíka fórn væri hennar sennilega ekki verður. Ég gerði það samt. Reyndar fórnaði ég líka heimili mínu og fjárhagslegu öryggi áður en hann gaf skít í mig en það var nú ekkert eins erfitt. Halda áfram að lesa

Enn eitt lúxusvandamálið

Óttalega er nú bjánalegt hvað mér finnst alltaf kvíðvænleg tilhugsun að koma jólunum í geymslu. Það hefur aldrei verið hið minnsta vandamál og sjaldan tekið langan tíma. Reyndar hefur það aldrei verið minna mál en í þetta sinn, þar sem ég hef aldrei verið í minni íbúð og þ.a.l. aldrei með minna skraut, hvorugur strákanna setti neitt upp í sínu herbergi og við settum ekki upp jólatré (enda hvergi almennilegt pláss fyrir það.)

Þetta er ein ljósakeðja, aðventukrans og einn kassi með kannski 10-15 hlutum. Auk þess er Darri heima og þótt hann sé ekki haldinn taumlausri afjólunarástríðu verður ekkert mál að fá hann til að hjálpa mér að taka niður háaloftsstigann og setja hann upp aftur en það er erfiðasti hlutinn af þessu prógrammi. Ég reikna með 12 mínútum í verkið. Samt líður mér eins og ég sé að fara í Bónus.

Í nærveru sálar

Þótt ég sé yfirhöfuð ekkert hrifin af því að vera gagnrýnd (þeir sem þykjast vera ánægðir þegar þeim er bent á vankanta sína eru jafn miklir lygarar og þeir sem segjast fagna samkeppni eða lögreglurannsókn) þá gengur mér yfirleitt nokkuð vel að takast á við geðshræringuna sem óhjákvæmilega fylgir því að þurfa að horfast í augu við sjálfan sig. Hitt er svo annað mál að óumbeðin gagnrýni er sjaldnast uppbyggileg en ég hef svosem aldrei verið í vandræðum með að svara fyrir mig. Mér finnst í raun auðveldara að takast á við ósanngirni og dónaskap en verðskuldaðar útásetningar, líklega af því að í þeim tilvikum lít ég svo á að það sé gagnrýnandinn eigi við stærri vandamál að stríða en ég. Halda áfram að lesa

Annáll ársins 2007

Um áramót er ég vön að líta yfir farinn veg og tíunda afrek síðasta árs. Það er frekar fljótlegt að þessu sinni. Helsta afrek mitt árið 2007 er það að hafa tekist að halda úti vefsíðu sem er uppfærð að meðaltali einu sinni á dag, þrátt fyrir að hafa ekki gert nokkurn skapaðan hlut sem er upprifjunar virði.

Jú annars, eitt kannski. Ég framdi svartagaldur á Austurvelli og síðan hafa verið stöðugar jarðhræringar í Upptyppingum.

Áramótakveðja

Nýtt ár er upp runnið og óska ég landsmönnum öllum og öðrum lesendum gríðarlegrar hamingju og skemmtunar á nýju ári. Sérstaklega vona ég að bekkjarsystkini mín úr Þelamerkurskóla sem skipulögðu bekkjarmótið í haust verði fyrir margháttuðu happi á árinu þar sem umrædd samkoma hafði hinn mesta happadrátt í för með sér.

Áramótaheit mín að þessu sinni eru tvö.
1 Ég ætla að hætta að hugsa fyrir syni mína. Að sjálfsögðu ætla ég áfram að hafa skoðanir á öllu sem þeir gera og gera ekki og skipta mér af eftir smekk og þörfum. Ég ætla hinsvegar að hætta að minna þá á að skila bókasafnsbókum, kaupa afmælisgjafir, mæta í matarboð og hengja úr þvottavélinni.
2 Ég ætla að finna leiðir til að vera eins góð við Pegasus minn og hann á skilið. Það verður öllu erfiðara.