Enn eitt lúxusvandamálið

Óttalega er nú bjánalegt hvað mér finnst alltaf kvíðvænleg tilhugsun að koma jólunum í geymslu. Það hefur aldrei verið hið minnsta vandamál og sjaldan tekið langan tíma. Reyndar hefur það aldrei verið minna mál en í þetta sinn, þar sem ég hef aldrei verið í minni íbúð og þ.a.l. aldrei með minna skraut, hvorugur strákanna setti neitt upp í sínu herbergi og við settum ekki upp jólatré (enda hvergi almennilegt pláss fyrir það.)

Þetta er ein ljósakeðja, aðventukrans og einn kassi með kannski 10-15 hlutum. Auk þess er Darri heima og þótt hann sé ekki haldinn taumlausri afjólunarástríðu verður ekkert mál að fá hann til að hjálpa mér að taka niður háaloftsstigann og setja hann upp aftur en það er erfiðasti hlutinn af þessu prógrammi. Ég reikna með 12 mínútum í verkið. Samt líður mér eins og ég sé að fara í Bónus.