Dagbók frá 7. bekk 8

Ég er búin að læra fullt af nýjum orðum sem ég veit ekkert hvað þýða. Eins og t.d. snípur og fróa sér. Mér finnst snípur vera ógeðslegt orð. Það hljómar eins og lítið hárlaust nagdýr. En það er ekkert svoleiðis heldur eitthvað dónalegt. Ég er ekki viss en ég held að “fróaðu þér” sé bein þýðing á “fokk you”. Það er líka rökrétt af því að fróa er áreiðanlega skylt fræ. Samt held ég að það sé ekki beint að gera það heldur svipað og að rúnka sér en rúnka sér er ekki að ríða, heldur eitthvað eins og það sem skeður þegar maður rennir sér niður handrið. Það er allavega talað um að rúnka sér á handriðinu þannig að það hlýtur að vera það.

Ég er frekar klár í því að nota orð sem ég skil ekki. Það er kannski af því að merkingin skiptir ekki svo miklu máli ef maður er eitthvað að dónast. Ég veit allavega að lessa er kvenkyns hommi. Stundum dettur mér í hug að ég sé svoleiðis af því mér finnst svo fallegt að sjá sumar stelpurnar berar. En ég er samt örugglega ekki svoleiðis af því mér finnst bara gaman að tuskast við stráka en ekki stelpur. Brjóst eru mjög falleg en ég vil ekki hafa þau utan í mér. En það er gaman að slást við stráka sem eru ekki mjög sterkir en samt sterkari en ég.

 

Dagbók frá 7. bekk 7

Í dag fórum við í sund og strákagerpin reyndu að draga sundbolina af okkur. Brjóstin á Siggu fóru alveg upp úr og hún var alveg brjáluð. Villi í mínum bekk kaffærði mig og ég varð mjög hrædd. Ég er ekki hrædd við að deyja en ég er samt hrædd við að drukkna. Og svo var ég öskureið af því að það sást alveg að ég var hrædd og mér fannst það ekki gaman. Ég henti fötunum strákanna í sundlaugina og svo hlupum við allar upp í skóla. Ég flúði inn á herbergi til Sillu og Siggu en strákarnir sóttu mig og báru mig fram á gang og rennbleyttu mig. Þetta var samt gaman. Allur gangurinn er rennandi blautur núna en við reyndum samt að þurrka það mesta upp. Ég verð eiginlega að læra að synda. Annars verð ég annað hvort drepin eða klædd úr næst þegar ég fer í sund.

Dagbók frá 7. bekk 6

Það eru allir vitlausir í karamellur í þessum skóla. Þegar einhver fer í bæinn er hann alltaf beðinn að kaupa karamellur fyrir milljón manns. Ég hef aldrei fattað hvað karamellur eru æðislegar en þær eru það. Helgi horfir mikið á mig. Ég held að hann sé kannski hrifinn af mér. Ég er ekki hrifin af honum.

Dagbók frá 7. bekk 5

Það er gaman í skólanum og mér gengur vel í öllu. Líka stærðfræði. Þorgeir (1) er snargeggjaður en hann er samt alveg almennilegur við mig. Villa fer í taugarnar á mér og enskubókin er alltof barnaleg en það er samt alveg gaman að læra ensku. Samt fíflumst við helling í enskutímum. Það er bara bull að það sé vondur matur hérna. Að vísu er sagógrautur ógeð en þá borðar maður bara brauðið. En það er svolítið skrýtið að krakkarnir hérna kunna ekki borðsiði. Þau brytja allan matinn í litla bita og halda á gafflinum í hægri hendi og kunna ekki að beita súpuskeið. Það er sjálfsagt af því að þau eru úr sveit. Guðrún gamla er ekki með neinar augnbrúnir. Hún málar á sig strik en þau eru rammskökk. Ég reyni að glápa ekki mikið á hana en það er erfitt af því að þetta er svo skrýtið.

(1. Þorgeir var stærðfræðikennarinn sem hótaði að höggva af okkur hausinn.)

 

Dagbók frá 7. bekk 4

Kennararnir eru líka allt í lagi held ég. Nema stærðfræðikennarinn. Hann er geðveikur í skapinu og er alltaf að hóta að höggva af okkur hausinn. Ég held ekki að hann geri það en ég er samt skíthrædd við hann.

(1. Silla og Rósa höfðu verið með mér í skóla áður svo við vorum 3 sem vorum að koma nýjar inn.
2. Rúnar hafði einnig verið með mér í bekk, bráðmyndarlegur strákur en ekkert í líkingu við þá draumóra sem ég hafði haft um væntanlega bekkjarfélaga í stóra skólanum.)

 

Dagbók frá 7. bekk 3

Strákarnir í 7. eru ágætir held ég. Nema Eyvindur. Hann kallar mig alltaf Mjólkurbú Flóamanna. Ég þoli hann ekki. Þeir eru samt ekkert eins myndarlegir og ég hélt. Ég held svei mér þá að Rúnar (2) sé skástur. Það eru líka allar stelpurnar hrifnar af honum. En það er allt í lagi þótt þeir séu ekki sætir því sætir strákar hafa hvort sem er ekki áhuga á ljótum stelpum. Diddi Dóri er algert gerpi og alltaf að skjóta einhverju á mig. Svo segir hann 500 brandara á dag en enginn þeirra er fyndinn. Hann er samt svolítið sætur en ég er samt ekki hrifin af honum en samt er hann stundum ágætur og ekkert heimskur.

 

Dagbók frá 7. bekk 2

Stelpurnar í mínum bekk eru fínar. Ég kann vel við þær af því að þær eru líka með brjóst. Ekki kannski eins hrikaleg og ég en brjóst samt. Mér finnst hinsvegar slæmt hvað það eru margar sætar. Það er ekkert gaman að vera feit og ljót í bekk með svona sætum stelpum eins og t.d. Önnu og Þórunni. Silla og Rósa (1) eru reyndar líka frekar ljótar svo ég er kannski ekki eins áberandi en þær eru samt mjög mjóar og ekki með rassinn út um allan skóla eins og ég. Ég kann vel við Ernu. Hún er með ennþá hryllilegri brjóst en ég og ekkert sérlega myndarleg. Og svo er hún skemmtileg líka og alltaf hlæjandi.