Það er gaman í skólanum og mér gengur vel í öllu. Líka stærðfræði. Þorgeir (1) er snargeggjaður en hann er samt alveg almennilegur við mig. Villa fer í taugarnar á mér og enskubókin er alltof barnaleg en það er samt alveg gaman að læra ensku. Samt fíflumst við helling í enskutímum. Það er bara bull að það sé vondur matur hérna. Að vísu er sagógrautur ógeð en þá borðar maður bara brauðið. En það er svolítið skrýtið að krakkarnir hérna kunna ekki borðsiði. Þau brytja allan matinn í litla bita og halda á gafflinum í hægri hendi og kunna ekki að beita súpuskeið. Það er sjálfsagt af því að þau eru úr sveit. Guðrún gamla er ekki með neinar augnbrúnir. Hún málar á sig strik en þau eru rammskökk. Ég reyni að glápa ekki mikið á hana en það er erfitt af því að þetta er svo skrýtið.
(1. Þorgeir var stærðfræðikennarinn sem hótaði að höggva af okkur hausinn.)