leytast eftir kinlýfi

Í dag er það orðatiltækið að leita eftir eða að leitast eftir sem ég ætla að nöldra yfir.

Við leitum að hlutum eða sækjumst eftir þeim og leitumst við að finna bestu lausnina.

Ennþá hroðalegri útgáfa af þessu klúðri er algeng á vefnum einkamal.is. Þar er nokkuð um að giftir mennn og graðir, sætir og saklausir eða feitir og forvitnir séu að leytast eftir kinlýfi. (Gjarnan með börnum ef eitthvað er að marka Kompás.)

Smjörþefur og nasasjón

Að fá nasasjón af einhverju merkir að fræðast lítillega eða fá lágmarks innsýn í það sem um ræðir. Nasasjón þarf alls ekki að vera neikvæð.

Að finna smjörþefinn er hinsvegar alltaf neikvætt. Sá sem finnur smjörþefinn af því sem er í vændum getur verið viss um að það verður ekki þægilegt enda er átt við smjör sem farið er að súrna.

Þessum tveimur orðatiltækjum er mjög oft ruglað saman í daglegu máli og fjölmiðlum. Ég man til dæmis eftir glaðlegri tilkynningu um að áhorfendur fengju nú smjörþefinn af Eurovision. Mér finnst sú söngvakeppni reyndar frekar súr en það var áreiðanlega ekki sú merking sem auglýsandinn ætlaði að koma áleiðis.

Hið bráðskemmtilega orðtak að fá nasaþefinn af einhverju er víst ekki samsláttur  heldur viðurkennt orðasamband, ef marka má Árnastofnun, sömu merkingar og nasasjón. Það virðist kannski nærtækara að finna þef í nösum en að sjá með nösunum en mig grunar nú samt að upphaflega hafi þetta verið samsláttur.

Hvernig þefur er annars af nösum? Lykta nasir ekki helst af hori? Það virðist rökrétt en ég hef þó ekki enn heyrt neinn tala um að fá horþefinn af einhverju. Sem gæti þó verið áhugavert.

Óvænt niðurstaða

indexMig langar að vita meira um þessa könnun sem á víst að sýna fram á að börn hlusti lítið á lesinn texta.

Mig langar t.d. að vita hvort börnin þekktu bækurnar sem voru lesnar fyrir þau eða hvort þetta var allt nýtt fyrir þeim. Mér finnst líklegt að börn séu mjög upptekin af myndunum í fyrsta sinn sem þau sjá nýja bók, en þau virðast nú flest vilja meira af því sama svo oftast eru sömu bækur lesnar fyrir þau oft. Ég hef ekki lesið fyrir ógurlega mörg börn en þegar mínir strákar voru litlir, leiðréttu þeir mig af mikilli ákveðni ef ég sleppti úr setningu eða skipti út orði og ég hef oft heyrt foreldra lýsa sömu reynslu.

Auk þess held ég að samræðurnar sem spretta af því að skoða bók saman séu mikilvægur þáttur í máltökunni og gaman væri að vita hvort eitthvað er komið inn á það í þessari rannsókn.

Ég er allavega ekki tilbúin til að kasta frá mér þeirri sannfæringu að það sé sniðugt að lesa fyrir börn ef maður vill að þau verði vel talandi.

Með unga í maganum

downloadÁ vísi.is er þessa frétt að finna:

Þrettán ára gömul risapanda í dýragarði í San Diego eignaðist í gær unga. Unginn kom í heiminn eftir þriggja klukkutíma erfiðar hríðir en annar ungi sem pandan bar einnig dó í maganum á henni.

Úff! ég segi nú ekki annað. Eina spendýrið sem ég veit til þess að hafi lifandi ungviði í “maganum” er Grýla. Magi er nefnilega líffæri sem er notað til að melta fæðu en ekki til að bera afkvæmi. Maginn er ásamt fleiri líffærum, þ.á.m. legi (hjá kvendýrum) staðsettur í kviðnum. Það er eðlilegt að börn og aðrir illa upplýstir óvitar rugli þessu tvennu saman og tali um að ólétt spendýr séu með börn eða unga “í maganum” en ég vona að flestir séu nú komnir með þetta á hreint um það leyti sem þeir ljúka grunnskólanámi.

Segðu þína skoðun

Minn innri málfræðingur fékk frekjukast í gær. Sá einhversstaðar eitthvað á þessa leið:

Hefur þú fengið punkt fyrir umferðarlagabrot? Farðu inn á eitthvað.is og segðu þína skoðun.

HALLÓ! Hefur maður yfirhöfuð skoðun á því hvort maður hefur fengið punkt eða ekki? Er þetta ekki einföld staðreyndaspurning? Ég hef alltaf haldið að skoðanir væru í eðli sínu umdeilanlegar. Hefur það eitthvað breyst?

Gargandi snilld

Ég vil endilega vekja athygli á málfarspistlum Sverris Páls Erlendssonar.

Sverrir Páll kenndi mér íslensku í MA, mér leiddist aldrei í tímum hjá honum.
Í síðustu færslu segir hann frá orðum sem hann hefur ljáð nýja merkingu og umfjöllun hans rifjaði upp fyrir mér snilldarþýðingar Matthíasar Viðars á orðunum nekrófílía og nekrófíll.

Nekrófíll er samkvæmt þýðingu Matthíasar návinur og nekrófílía er líkþrá eða líkyndi.
Er nokkur furða þótt ég hafi dýrkað þennan mann?

Mig rámar líka í atriði úr kvikmynd en kem ekki fyrir mig hvaða mynd, hvað þá hver þýðandinn var. Einhver hélt að Moby Dick væri kynsjúkdómur. Í þýðingunni varð hvíti hvalurinn að þúfutittlingi. Þetta finnst mér dásamleg þýðing.