Gargandi snilld

Ég vil endilega vekja athygli á málfarspistlum Sverris Páls Erlendssonar.

Sverrir Páll kenndi mér íslensku í MA, mér leiddist aldrei í tímum hjá honum.
Í síðustu færslu segir hann frá orðum sem hann hefur ljáð nýja merkingu og umfjöllun hans rifjaði upp fyrir mér snilldarþýðingar Matthíasar Viðars á orðunum nekrófílía og nekrófíll.

Nekrófíll er samkvæmt þýðingu Matthíasar návinur og nekrófílía er líkþrá eða líkyndi.
Er nokkur furða þótt ég hafi dýrkað þennan mann?

Mig rámar líka í atriði úr kvikmynd en kem ekki fyrir mig hvaða mynd, hvað þá hver þýðandinn var. Einhver hélt að Moby Dick væri kynsjúkdómur. Í þýðingunni varð hvíti hvalurinn að þúfutittlingi. Þetta finnst mér dásamleg þýðing.