Hvar hittir þú maka þinn? (FB leikur)

Ég hef hitt þá sem ég hef átt mök við á ýmsum stöðum.

Suma á trúarsamkomum, nokkra á vinnustöðum eða í skóla. Einn í fangelsi, tvo á veitingastöðum, tvo heima hjá fyrri bólfélögum, einn á internetinu, einn í hitakompu í Kringlunni, hann hafði hlýja nærveru.

Einn gerði mér áhuga sinn ljósan þar sem við tvímenntum á asna í fornsögulegri hellaborg. Það var erótískasti asni sem ég hef riðið.

Einhvernveginn eitthvað

-Ég veit ekki hvernig ég á að orða það, en það er einhvernveginn eitthvað, kannski látbragðið eða hvernig þú ferð alltaf að stara mjög fast niður í borðið þegar ég horfi á þig, sem segir mér að þér líði óþægilega nálægt mér. Samt er eins og þú viljir alveg að ég faðmi þig.
-Elskan. Vert’ekki með svona blá augu.
-Ég er reyndar brúneygur.
-Já, sannarlega. Ég hef einmitt tekið eftir því.

Karamella

Og þegar maður veit fyrirfram að það mun ekki ganga, þá prófar maður eitthvað annað. Skiptir döðlum út fyrir karamellur.

Karamelluaugu eru mjúk, sæt og loða við mann. Höfða einhvernveginn til munnsins. Eins og kossar byrji í augunum.

Ég held að karlfyrirlitning mín sé að ná hámarki.
Gæti hugsað mér að éta einn núna.

Faðmlög eða kossar? (FB leikur)

Faðmlög án kossa geta verið ágæt þótt stundum vilji maður bæta kossi við. Kossar án faðmlaga eru aftur dálítið skrýtin upplifun. Virkar bara í mjög sérstökum aðstæðum. Snerting handa við andlit (eins og það getur nú verið ágætt) er samt ekki faðmlag. Faðmlag felur í sér að einhver tekur þið í faðm sinn, þ.e. umlykur líkama þinn með brjósti og örmum.

Faðmlög: T.d. svona snöggt vinarhótafaðmlag með klappi á herðablað.
Huggunarfaðmlag skal vera mjúkt, þétt, utan um axlir, umvefjandi, stundum svo fast að maður nær varla andanum.
Ástarfaðmlag undir annan handlegg, yfir hinn, með þéttum, mjúkum strokum niður bakið.

Kossar:
Á enni = virðing
Á vanga = umhyggja
Á gagnauga = áhugi
Á nef = kímni
Á hönd = aðdáun
Á háls = losti
Á munn = ást

Ástarkossar; í fyrstu með vörum. Rólega. Fáir, hægir, mjúkir, langir, blíðir, þéttir. Ekki slefa á mig.
Seinna, margir, tíðir, ákafir; tungu takk en vinsamlegast ekki reyna að sleikja á mér vélindað. Tennur, kannski já, varlega þó.

Gæti þegið koss núna, svei mér þá. Eða tvo eða fimmtán.

Nokkrar spurningar í viðbót (FB leikur)

Hvar fæddist þú?
Á Lansanum er mér sagt en ég man ekkert eftir því og það gæti þessvegna verið haugalygi. Um 12 ára aldurinn þótti mér líklegt að ég væri af ættum álfa og hefði verið sett í fóstur í mannheimum. Seinna sá ég fæðingarvottroðið mitt og sannfærðist um að þessi Lansasaga væri allavega að einhverju leyti sönn.

Hefur þú einhvern sérstakan hæfileika?
Já. Ég get talið hvaða eymingjadindli sem er trú um að hann sé algert dýr í bælinu.

Hver finnst þér vera þinn stærsti galli?
Ég hefi öngva galla en ofvaxin réttlætiskennd mín gerir líf mitt stundum erfiðara.

Uppáhalds hljóð?
Hlátur smábarns.
Andardráttur sofandi elskhuga.
Fíngert vorregn sem dynur á trjákrónu í logni.

Ég reikna líka með að ég muni lengi halda upp á taktfast pottaglamur og van-hæf-ríkis-stjórn.

Uppáhaldseftirréttur? 
Helst eftirréttahlaðborð. Ís virkar alltaf. Og eplakaka. Cremé Bruley er snilld. Peruterta klassísk.Annars gildir sú regla að ef það er borið fram með þeyttum rjóma, mun ég að öllum líkindum klára það.

Teygjustökk?
Því ekki? Það hljómar allavega skemmtilega.

Ég er annars að átta mig á því að miðað við hvað stökk hljóma almennt skemmtilega hef ég gert merkilega lítið af því að stökkva. Líka að þegar ég hugsa um stökk, er það alltaf stökk niður, úr mikilli hæð. Ég hugsa t.d. aldrei um hástökk.

Nokkrar spurningar úr FB leiknum

Sumar eða vetur? 
Hver sá sem stingur nefinu út um gluggann og heldur að sé sumar er annaðhvort ísbjörn eða með gervinef.

Háralitur? 
Ég er veik fyrir rauðhærðum karlmönnum einkum ef þeir hafa mikið hár. Synd að rautt hár er yfirleitt orðið muskulegt fyrir þrítugt.

Augnalitur? 
Fallegust eru augu þess sem maður horfir mest á hverju sinni.

Ég hef ort um blá augu, grá, móleit, brún, græn, gul og svört. Það síðasta gæti átt rætur í hugarórum fremur en raunveruleikanum. Ég hef þó aldrei ort um rauð augu, bleik, appelsínugul eða fjólublá.

 

 

Hryllingsmynd eða góður endir? (FB leikur)

Ég fæ alveg sérstakt kikk út úr hrollvekjum. Horfi ekki oft á þær en nýt þess í botn og garga af kröftum. Ég nota hrollvekjur til útrásar, skil myndina algerlega eftir í bíóinu og sef vel á eftir. Flestar hrollvekjur enda vel. Kannski er það hluti af ástæðunni fyrir dálæti mínu á þeim en ég á erfitt með góðan endi nema hafa fengið góðan skammt af móteitri áður.

Ég hef lítið úthald í rómantískar gamanmyndir, tel þær náskyldar klámi en sakir gífurlegra vinsælda þeirra horfi ég stundum á þær með vinkonum mínum. Í 90% tilvika er það tímasóun. Gæti eins hangið á facebook.