Faðmlög eða kossar? (FB leikur)

Faðmlög án kossa geta verið ágæt þótt stundum vilji maður bæta kossi við. Kossar án faðmlaga eru aftur dálítið skrýtin upplifun. Virkar bara í mjög sérstökum aðstæðum. Snerting handa við andlit (eins og það getur nú verið ágætt) er samt ekki faðmlag. Faðmlag felur í sér að einhver tekur þið í faðm sinn, þ.e. umlykur líkama þinn með brjósti og örmum.

Faðmlög: T.d. svona snöggt vinarhótafaðmlag með klappi á herðablað.
Huggunarfaðmlag skal vera mjúkt, þétt, utan um axlir, umvefjandi, stundum svo fast að maður nær varla andanum.
Ástarfaðmlag undir annan handlegg, yfir hinn, með þéttum, mjúkum strokum niður bakið.

Kossar:
Á enni = virðing
Á vanga = umhyggja
Á gagnauga = áhugi
Á nef = kímni
Á hönd = aðdáun
Á háls = losti
Á munn = ást

Ástarkossar; í fyrstu með vörum. Rólega. Fáir, hægir, mjúkir, langir, blíðir, þéttir. Ekki slefa á mig.
Seinna, margir, tíðir, ákafir; tungu takk en vinsamlegast ekki reyna að sleikja á mér vélindað. Tennur, kannski já, varlega þó.

Gæti þegið koss núna, svei mér þá. Eða tvo eða fimmtán.