Hnútur

Vaknaði í svitabaði og með hnút í maganum og skildi ekkert hversvegna. Það er sjaldgæft að ég stressi mig yfir engu en þótt ég færi samviskusamlega yfir allt sem gæti orsakað þetta ástand fann ég enga rökrétta skýringu. Bara eins og eitthvað óþægilegt væri í aðsigi.

Ég fór til Pegasusar til að gá hvort hann væri að setja í dömpgírinn en sá ekkert sem benti til þess. Samt hvarf hnúturinn ekki. Ekki fyrr en ég fékk pínu óþægilegt símtal.

Hann er horfinn núna. Og bíllinn minn sennilega ónýtur. Enginn meiddist.

 

Hvað er að gerast þarna inni?

Iðulega berst Nornabúðinni tölvupóstur sem hljóðar eitthvað á þessa leið: „Mig vantar einhvern góðan galdur. Hvað geturðu ráðlagt mér?“

Ætli þetta sama fólk skrifi fataverslunum tölvupóst með skilaboðunum: „Mig vantar einhverja góða flík. Hvað geturðu ráðlagt mér?“

Mér finnst þó enn furðulegra þegar fólk kemur inn í búðina og segir „mér er sagt að ég sé skyggn, hvað geturðu ráðlagt mér?“

 

Húsráð

MFÍK og félagið Auður þurftu auðvitað endilega að halda aðalfundi sína á sama tíma. Enda útilokað að hægt sé að vera friðarsinni og frumkvöðull í senn. Ég setti Friðarhúsið ofar þar sem er enginn skortur á frumkvöðlum á Íslandi en hinsvegar fáir sem telja að undirokun og manndráp komi þeim við. Að vísu skal viðurkennast að dásamlegt lasanja, rauðvín og Svavar Knútur vógu alveg til hálfs á við málstaðinn, enda lét ég mig hverfa fljótlega eftir matinn. Þykist reyndar hafa góða afsökun en auk þess hef ég síðustu 10 árin þróað með mér andstyggð á hverjum þeim fundi þar sem þáttakendur eru fleiri en þrír. Halda áfram að lesa

Point of no return

Sunnudagur.

Kaffi og pönnukökur en að öðru leyti er lítill sunnudagur í mömmunni sem pakkar bókunum sínum í kassa á meðan börnin sveimhugast um íbúðina. Mamman minnir á fyrirætlanir sínar um að festa geymslu á mánudagsmorgun og mætir fullum skilningi hjá ungviði sem álítur ranglega að það sé svo lítið mál að koma persónulegu dóti og fatnaði burt að það sé engin ástæða til að byrja á því með 12 klukkustunda fyrirvara. Halda áfram að lesa

Róttæk aðgerð

Ætli maður að ýta ungunum út úr hreiðrinu í alvöru, þarf maður einnig að tryggja að þeir taki dröslin sín með sér. Hætt er við að ungmenni leggi undir sig hluta af heimilinu löngu eftir að þau eru flutt út og ég hef ekki í hyggju að reka búslóðageymslu fyrir börnin mín. Bílskúr pabba míns þjónaði okkur systrunum sem geymsla þar til hann seldi húsið og ég ákvað, m.a.s. áður en ég fjarlægði síðustu kassana mína, að læra af hans reynslu.
Halda áfram að lesa