Point of no return

Sunnudagur.

Kaffi og pönnukökur en að öðru leyti er lítill sunnudagur í mömmunni sem pakkar bókunum sínum í kassa á meðan börnin sveimhugast um íbúðina. Mamman minnir á fyrirætlanir sínar um að festa geymslu á mánudagsmorgun og mætir fullum skilningi hjá ungviði sem álítur ranglega að það sé svo lítið mál að koma persónulegu dóti og fatnaði burt að það sé engin ástæða til að byrja á því með 12 klukkustunda fyrirvara.

Haukur minn, þú verður svo að muna að taka geisladiskana þína, sagði ég því tveggja áratuga reynsla hefur fært mér heim sanninn um það að sonur minn Byltingin man hvorki hvaðan hann er að koma né hvert hann er að fara, hvað þá hvaða hluti hann þarf að taka með sér.
Jájá, ég er alveg meðvitaður um það. Ég veit að þetta lítur út eins og ég sé ekki að gera neitt en ég skil bara ekki hvers vegna flutningar þurfa alltaf að einkennast af því að allir séu hlaupandi út um allt, svaraði sonur minn Byltngin, glaðlega að vanda.
Hver er hlaupandi út um allt sagði ég forviða enda á mörkunum að sé hægt að kalla það flutninga að tæma fataskápa og koma skrautmunum og bókum út í bíl. Ég sé ekki stress á nokkrum manni og er sjálf ekki að flýta mér meira en svo að ég tók tíma í að steikja pönnukökur. Enda er ég næstum búin að því sem ég ætlaði að gera, það ert þú sem ert að koma þér í tímaþröng en ekki ég.
-Já, það eru kannski ekki beinlínis læti en æ, þetta er einhvernveginn óþægilegt. Þú bara allt í einu farin burt með einhverja kassa og Darri að bera dót niður og svo kemur Miriam og fer að rífa dót niður úr hillum …

Ég hugleiddi hvort ég ætti frekar að urra á hann eða fá hláturskast en taldi óvíst að urrið skilaði árangri og fannst absúrdisminn ekki ganga alveg nógu langt til að leggjast í hláturkrampa. Þegar allt kemur til alls hef ég þekkt hann í meira en 21 ár og þótt hann geti hugsað hratt, talað hratt og ort hratt, hefur hann það einfaldlega ekki í sér að flokka og raða nema í fyrsta gír.

-Það er nú reyndar bara þannig sem flutningar fara fram, Haukur minn, sagði ég rólega. Fólk tekur semsagt hlutina úr hillunum, setur þá í kassa og fer burt með þá. Það heita flutningar og þeir eru óþægilegir. En til þess að dótið fari, þá þarf fyrst að setja það í kassa.
-Jájá, ég er alveg meðvitaður um það, ég þarf bara að fá að gera þetta á mínum hraða
sagði Haukur, sem undantekingalaust byrjar á öllu sem ég bið hann um.

Ég sé fram á að geta skilað íbúðinni um páska ef ég læt hann um að pakka niður á sínum hraða. Redd’ess’í kvöld.

Þegar ég kom heim í morgun rann upp fyrir mér að þetta er sögulegur dagur í lífi mínu. Síðasti dagurinn sem ég tek til eftir syni mína. Síðasti dagurinn sem við búum undir sama þaki. Þeir eru að fara í alvöru, ekki bara til að búa með annan fótinn í kommúnu, heldur í alvöru. Elska ég drengina mína? Já vissulega. Ég þjáist bara af tilhugsuninni um að einhver beiti þá rangindum. Ber ég umhyggju fyrir þeim? Já, en ég finn ekki lengur fyrir þörf til að vita um allar þeirra athafnir og skipta mér af öllum þeirra ákvörðunum. Kýs ég návist þeirra? Já, það geri ég en ekki stöðugt og ég kýs sannarlega ekki návist safnhauganna sem fylgja þeim.

Það er góð tilfinning að sleppa takinu á börnunum sínum. Allavega þegar maður er nokkuð viss um að þau sé fullfær um að standa í lappirnar sjálf. Á föstudaginn ætla ég að kaupa mér eitthvað. Það gerist ekki oft og ég veit ekkert hvað það á að vera.