Róttæk aðgerð

Ætli maður að ýta ungunum út úr hreiðrinu í alvöru, þarf maður einnig að tryggja að þeir taki dröslin sín með sér. Hætt er við að ungmenni leggi undir sig hluta af heimilinu löngu eftir að þau eru flutt út og ég hef ekki í hyggju að reka búslóðageymslu fyrir börnin mín. Bílskúr pabba míns þjónaði okkur systrunum sem geymsla þar til hann seldi húsið og ég ákvað, m.a.s. áður en ég fjarlægði síðustu kassana mína, að læra af hans reynslu.

Ég sumsé leigði íbúðina mína út að mínu eigin herbergi undanskildu en það er aðskilið íbúðinni. Býsna róttæk aðgerð, verð ég að viðurkenna en ég þekki sjálfa mig og veit að ég hefði ekki neitað krökkunum um að geyma megnið af dótinu sínu heima hjá mér (eins og Haukur hefur reyndar gert þótt hann sé að nafninu til fluttur út fyrir löngu). Auk þess er hætt við að ég hefði dregið það fram á vor að henda Darra út í djúpu laugina ef ég hefði ekki sett sjálfa mig í þá aðstöðu að neyðast til að koma honum út.

Ég er fegin. Dauðfegin. Sé ekkert eftir fallega heimilinu mínu því ég er hvort sem er að fara inn í geðveika vinnutörn og svo til útlanda þannig að ég yrði ekkert heima nema yfir blánóttina hvort sem er. Og þegar ég flyt inn aftur, verða engin hljóðfæri, klifurbúnaður, mótmælaskilti, óhrein föt eða geisladiskahulstur úti um allt. Það verður heldur ekkert mál að flytja inn aftur því ég leigi íbúðina út með húsgögnum og heimilistækjum, svo það eina sem ég þarf að gera er að setja bækurnar aftur upp í hillur og bera postulínsbrúðurnar ofan af háalofti. Það er öllu meira mál að aka blessuðu ungviðinu til að tæma herbergin sín. Á föstudaginn sagði ég þeim að á mánudagsmorgun þyrfti allt sem þeir ætluðu að taka með sér að vera farið og allt laust dót sem ætti að fara í geymslu (ekki samt mína geymslu) að vera komið í kassa svo ég sæi nákvæmlega hve mikið geymslupláss þyrfti að taka. Gekk það eftir? Gettu þrisvar.

 

 

One thought on “Róttæk aðgerð

  1. ————————————————

    Þetta útskýrir hvers vegna Hauki lá svona á þarna á mánudagskvöldið.

    Posted by: Vésteinn Valgarðsson | 30.01.2008 | 1:57:39

Lokað er á athugasemdir.