Bráðum, bráðum

Á föstudaginn mun fyrsta manneskjan sem ég býð góðan dag, ekki urra á mig með ygglibrún. Enginn mun tuða yfir hitastiginu á kranavatninu eða skamma mig fyrir það hvernig veðrið er.

Þegar ég set bílinn í gang mun ekki dyjna á mér 500 desibela hávaði, heldur kveiki ég á útvarpinu sjálf og stilli það eins hátt og mér hentar. Enginn mun hækka í því aftur eða rífast yfir því hvað það er lágt stillt. Enginn mun ausa af gnægtabrunni geðbólgu sinnar yfir mig þótt rauða ljósið leggi okkur í einelti eða þótt fólk sem ég þekki ekki neitt kunni ekki umferðarreglurnar. Ég mun ekki þurfa að leggjast í 10 mínútna leit til að finna þann disk sem ég vil hlusta á því í hanskahólfinu verða 2 geisladiskar en ekki 60 og Roger Whittaker diskurinn verður ekki í hulstrinu utan af Murderballads.

Þegar ég kem heim verða engir skór í gangveginum. Það verður ekkert óhreint leirtau í stofunni. Reyndar verður enginn búinn að baka brauð eða elda en það mun heldur ekki flæða upp úr sorppokanum og ég mun ekki þurfa að eyða klukkutíma í að koma eldhúsinu í það ástand sem ég vil hafa það (semsagt fullkomið.) Það verður ekkert tófú eða annað furðufæði í kæliskápnum. Það verður enginn búinn að taka niður þvottinn af hamslausum dugnaði en það þýðir líka að það verða engir haugar af illa samanbrotnum þvotti úti um allt. Enginn verður búinn ‘hjálpa til´ með því að sjóða silkinærfötin mín eða skella borðtuskunum í þvottavél með lopapeysunum. Það verða engar yfirhafnir hangandi á borðstofustólunum eða óhreinir sokkar á stofugólfinu og engin kexmylsna í sófanum. Það verður heldur ekkert tannkremsfruss á speglinum á baðinu.

Það verður ekkert fólk heima hjá mér að rífast um hvort eigi að horfa á Ómega eða gamla Fóstbræðraþætti. Ég mun ekki þurfa að hlusta á gítaræfingar fram undir miðnætti eða vakna upp við þær um miðja nótt.

Og þegar börnin mín koma í mat, munu þau skemmta mér hæfilega lengi, fara svo aftur og taka alla þessa illflokkanlegu fylgihluti sína (t.d. umferðarskilti, trjágreinar og ísaxir) með sér.

Skrýtið að elska fólk út af lífinu en finna samt ekki til neins trega þótt það flytji. En það er einhvernveginn þannig. Sumt fólk er svo stór hluti af lífi manns að það er óþarfi að sakna þess þegar það fer.

 

One thought on “Bráðum, bráðum

  1. ——————————————-

    Eftir þennan lestur sé ég að við yrðum frábærir sambýlingar 🙂

    Posted by: lindablinda | 30.01.2008 | 16:56:47

Lokað er á athugasemdir.