Rambl

Þegar lungað í systur minni féll saman, fyrir nokkrum vikum (og það ekki í fyrsta sinn) fékk ég paranojukast og hætti í magadansi. Soghljóðið sem heyrist í brjóstkassanum á mér við vissar hreyfingar (sem reynir mikið á í magadansi) er nefnilega nákvæmlega eins og í henni og ég fékk stundum verki eftir æfingar. Aðrar konur sem voru með mér í tímum könnuðust ekkert við þetta hljóð og kennarinn sagði mér að fara til læknis, því þetta væri ekki eðlilegt.
Halda áfram að lesa

Sjálfsfróunarkúrinn

Í nótt lá ég andvaka í rúmi Pegasusar og hlustaði á hreiðurgerðargargið í fugli sem hefur líklega ruglast í dagatalinu. Ósköp fallegur söngur svosem en mér skilst að fuglinn sjálfur sé ekki að syngja heldur að gera hugsanlegum óvinum grein fyrir því hvar Davíð keypti ölið. (Hvaða Davíð var það annars og af hverju þekki ég ekki uppruna þessa orðtaks?)
Halda áfram að lesa

Sá Eini Sanni

Þannig að þú ert bara búin að finna þann eina sanna, spurði Maðurinn sem mætti í morgunkaffi.

Undarlega margir sem nota þennan frasa. Eini Sanni. eða Sá Rétti. Mér finnst skrýtið að goðsögnin skuli lifa svo sterku lífi í orðræðu fullorðins fólks en ég heyri eitthvað af þessu tagi í hverri viku. Halda áfram að lesa

Það er erfitt að ríða í heilbrynju

Einu sinni furðaði Keli sig á því hvað ég ætti miklu auðveldara með að treysta ókunnugum en ástvinum mínum. Ég sagði honum að það væri nú ekkert skrýtið. Þeir einu sem hefðu farið illa með mig væri fólk sem ég þekkti og treysti. Þótt staðhæfingin beri óneitanlega keim af kaldhæðni er sannleikskjarni í henni fólginn. Halda áfram að lesa

Púff!

Ó mæ god hvað ég er búin að hespa af leiðinlegu verkefni í morgun.

Jamm og af því að ég hef orðið vör við lítinn en mjög leiðinlegan misskilning; mistökin sem ég gerði í október tengjast Pegasusi ekki neitt. Ég gerði þau heimskulegu mistök að reikna með innkomu sem gat alveg eins klikkað (og gerði það) þegar ég hefði frekar átt að sýna þá ábyrgð að taka að mér annað, öruggara og óskemmtilegra verkefni. Eins og t.d. að prófarkalesa snyrtivörubæklinga. Konur eru heimskara kynið. (Ég hef reyndar ekki lesið bílablöð svo það er hugsanlegt að mér skjátlist.)

Ég er með feituna, ljótuna, andleysuna, heimskuna og blönkuna. Geðsleg samsetning eða hitt þó heldur. Hlýtur að verða beinlínis uppörvandi að mæta á útifund í hádeginu.

Skítt með það allt, ég er elskuð.

Já og áðan kom Sjoppmundur hlaupandi yfir til mín með volgt pekanhnetuvínarbrauð. Hann elskar mig semsagt líka.
Lífið er gott. Ekki endilega auðvelt, skemmtillegt eða áhugavert, en það er gott.

 

Klakinn

Ég skil Golla. Gaurinn var búinn að þvæla múg og margmenni, búpeningi, öndvegissúlum (dæmi um undarlegasta drasl sem fylgir karlmönnum, hvað var konan hans að pæla að taka svoleiðis rugl í mál?) og allskonar öðru drasli norður í ballarhaf og ljúga því að sjálfum sér og öðrum að hann hefði fundið lífvænlegt land. Það hefði bara verið meiriháttar bögg að húrra öllu liðinu upp í skip aftur og snúa heim til Noregs með skottið á milli fótanna. Auk þess hélt hann kannski að þetta væri ekkert alltaf svona.

Ég skil líka alveg afkomendur hans. Það er nógu helvíti leiðinlegt að flytja þótt maður setji ekki börn sín og búalið í margra vikna lífsháska til þess.

Hvað ég sjálf er að pæla, það er aftur á móti óskiljanlegt. Ég verð að komast burt af þessum klaka. Kemst ekki spönn frá rassgati eins og er en í alvör, þetta er síðasti veturinn sem ég bý á þessu grjótskeri.

Þetta segi ég reyndar alltaf á þessum árstíma. Það líður hjá í apríl en í augnablikinu þoli ég varla við. Ég hef ekki passað hendurnar á mér nógu vel og er komin með gigtarverki. Sjálfri mér að kenna og allt það en það er bara ekkert það sem fer verst í mig. Ég hata íslenskan vetur. Ég þarf að komast burt. Núna.