Rambl

Þegar lungað í systur minni féll saman, fyrir nokkrum vikum (og það ekki í fyrsta sinn) fékk ég paranojukast og hætti í magadansi. Soghljóðið sem heyrist í brjóstkassanum á mér við vissar hreyfingar (sem reynir mikið á í magadansi) er nefnilega nákvæmlega eins og í henni og ég fékk stundum verki eftir æfingar. Aðrar konur sem voru með mér í tímum könnuðust ekkert við þetta hljóð og kennarinn sagði mér að fara til læknis, því þetta væri ekki eðlilegt.

Ég er næstum viss um að ég er með nokkrar skemmdar lungnablöðrur (sennilega bara afþví ég hef aldrei reykt að ég er ekki búin að lenda í svipuðu og litla systir mín) en get náttúrulega ekki bara látið undan einhverri sjúkdómahræðslu og sleppt því alveg að hreyfa mig hér eftir. Magadans er eina hreyfingin sem ég hef beinlínis gaman af en ég er ansi hrædd um að það henti ekki lungunum mínum. Það ber ekki nærri eins mikið á þessu soghljóði við göngu eða aðra hreyfingu sem reynir lítið á brjóstkassann svo nú er verkefni næstu viku að bíta í mig kjark og nennu til að druslast í ræktina.

Já, svona til frekari upplýsingar; hvað sem kenningum kristlinga líður, hefur ofát aldrei slegið neitt á dónaskapinn í mér. Nú er ég búin að sannreyna að það er alveg sama hvað ég næri klámsýkina í mér mikið, mig langar ekkert minna í súkkulaði fyrir það.

 

One thought on “Rambl

  1. —   —   —

    er nokkuð að því að langa í súkkulaði? mér finnst það jafn eðlilegt og að langa að fróa sér.

    Posted by: baun | 8.03.2008 | 17:57:30

    —   —   —

    Það er ekkert að því að langa í súkkulaði. Það er hinsvegar meiri hætta á að maður verði feitur af því að gúlla í sig öllum þeim helling af súkkulaði sem mig langar í en að maður verði blindur af því að fróa sér.

    Og ef út í það er farið er ódýrara að fá gleraugu til að lesa en lyftara til að komast í bað.

    Posted by: Eva | 8.03.2008 | 19:08:59

Lokað er á athugasemdir.