Sá Eini Sanni

Þannig að þú ert bara búin að finna þann eina sanna, spurði Maðurinn sem mætti í morgunkaffi.

Undarlega margir sem nota þennan frasa. Eini Sanni. eða Sá Rétti. Mér finnst skrýtið að goðsögnin skuli lifa svo sterku lífi í orðræðu fullorðins fólks en ég heyri eitthvað af þessu tagi í hverri viku.

Hinn Eini Sanni er ekki til. Það geta vel verið margir sannir eða réttir en ég þekki ekkert dæmi um að gott samband hafi stokkið fullmótað úr höfði Seifs. Góð sambönd eru búin til. Maður stofnar til sambands, byggir það upp, nærir það og viðheldur því. Með vinnu og þolinmæði. Eða skemmir það með vanrækslu eða illri meðferð.

Ég hef kynnst mönnum sem voru ekki réttir af því að gagnkvæmur áhugi var ekki til staðar. Ég hef líka kynnst mörgum fávitum. Mönnum sem voru ekki réttir fyrir mig af því að þeir vildu ekki leysa ágreining, komu fram af virðingarleysi eða áttu við að stríða vandamál sem gerðu þá ósambúðarhæfa. Ég hef líka kynnst mönnum sem voru alveg ‘réttir’ fyrir mig um tíma þótt sambandið hafi ekki gengið upp. Ekkert að manninum og ekkert að mér, heldur bara illa unnið úr góðu hráefni. Hjónaband okkar Hilmars var t.d. alveg ágætis hjónaband, allt þar til við hættum að leggja rækt við það og fórum að bregðast við erfiðleikum og ágreiningi með því að ásaka hvort annað í stað þess að finna lausnir (að sjálfsögðu finnst mér það vera honum að kenna og honum að það sé mér að kenna). Hilmar er alveg jafn sannur eða réttur eftir sem áður, og þótt ég hafi ekki minnsta áhuga á búa með honum aftur er ég nánast viss um að ef ég gæti spólað til baka og byrjað upp á nýtt, með þá þekkingu sem ég hef í dag, hefði okkar hjónaband orðið mjög farsælt. Ég lít ekki á það sem mistök að hafa skilið við Hilmar. Það tók mig bara of mörg ár að átta mig á því sem þurfti til að við hefðum orðið hamingjusöm og ég hef ekki hugmynd um hvort hann er búinn að átta sig á því enn. Ég veit allavega núna hvaða mistök ég gerði.

Það er enginn sérstakur galdur á bak við sálufélag. Það eru fáar og skýrar leikreglur sem einkenna öll góð sambönd, sama hvort það eru ástarsambönd, vinátta, samband foreldris og barns, vinnufélaga eða hvaða samband sem er. Lík börn leika best en fólk getur vel átt góð samskipti þótt það sé mjög ólíkt og hafi ólíkan bakgrunn. Jafnvel síamstvíburar glíma stundum við ágreining og utankomandi erfiðleikar spyrja ekkert að því hvort fólk eigi eitthvað sameiginlegt eða ekki. Það sem einkennir öll góð samskipti er viljinn til að gera það sem þarf til að báðum geti liðið vel og leita að lausn fremur en sökudólg. Og ef marka má heimsástandið, skilnaðatíðni og samskiptin í sandkassanum þá er þetta bara hreint ekki auðvelt.

Sá Eini Sanni. Mr Right. Nei, það er hann ekki. Því þótt ég leiti heiminn á enda og á tunglinu líka, mun ég aldrei finna neinn sem er svo rosalega réttur að ég þurfi aldrei að biðja um það sem ég vil, útskýra eitthvað sem mér finnst að ætti að vera hverjum manni augljóst, velja á milli þess að láta gagnrýni sem vind um eyrun þjóta eða að krefjast þess að hann færi rök fyrir máli sínu, spyrja óþægilegra spurninga eða svara óþægilegum spurningum, reyna að botna í því hversvegna hann taki aðrar ákvarðanir en ég sjálf hefði tekið, sætta mig við ákveðin óþægindi, stilla mig um að rífa af honum verkefni sem ég er færari um eða halda aftur af löngun minni til að hafa alltaf síðasta orðið.

Þegar upp er staðið ræðst það sem gerir einhvern að réttum maka af þremur atriðum:
-Líður okkur vel saman?
-Ef öðru okkar hættir að líða vel, erum við þá sammála um að finna lausn sem bæði eru sátt við, til að okkur líði aftur vel saman?
-Ætlum við að virða þau mörk sem eru skilyrði þess að við kærum okkur um að finna lausn?

Þessi Eini Sanni eða Rétti er ekki til. En kannski er hann samt sem áður ósköp réttur. Ég held það. Vona það. En getur maður nokkurntíma verið viss? Það er tiltölulega einfalt að samþykkja þessi þrjú atriðið sem skipta máli því þau eru svo augljóslega rétt. Það þarf bjána til að skrifa ekki undir þau. Eitt af því sem ég veit ekki um sambönd er það hversu langan tíma þarf til að vera alveg um að önnur manneskja sé í alvöru tilbúin til að framfylgja þeim. Ef er þá yfirhöfuð hægt að vera viss.

Mér finnst gott að vera ástfangin á meðan allt er fullkomið en ég er satt að segja haldin lamandi kvíða gagnvart því að rekast á einhvern ramma sem ég vissi ekki um eða að gefa höggstað á mér til að fá það sem ég þarf. Sem verður samt ekki hjá komist. Ég óska hér með eftir blöndu af instant hugrekki, trausti og heiðarleika. Bakið í brauðformi, just add water.

 

One thought on “Sá Eini Sanni

Lokað er á athugasemdir.