Kunnugleg andlit allsstaðar. Á vissan hátt er það notalegt. You wanna be where everybody knows your name. Aðallega er það þó sorglegt. Kannski 100 hræður, max, og ég þekki allavega 75 í sjón.
Sumir eru í Félaginu Ísland-Palestína, sumir í Amnesty, fólk úr samtökum hernaðarandstæðinga, virkasta liðið frá Saving Iceland, kjarninn úr menningar- og friðarsamtökum íslenskra kvenna, nokkur vinstrigræn andlit sem ég þekki ekki úr neinni þessara hreyfinga en eru þá áreiðanlega í einhverjum friðar- eða náttúruverndarsamtökum sem ég hef ekki unnið með.
Svo fáir. Svo sárgrætilega fáir sem eru tilbúnir til að skjótast niður í bæ í hádeginu til að staðfesta þá skoðun að óhæfan sem viðgengst allt í kringum okkur komi okkur eitthvað við. Hinn áhyggjufulli forsætisráðherra okkar hefur öðrum hnöppum að hneppa. Hann er svosem búinn að segja sitt álit. Ísraelsmenn eru nottulega að verja sig en hann hefur áhyggjur af þessu öllu, bara ekki nógu miklar til að gera neitt í því. Ingibjörg Sólrún sendir fundinum kveðju og segir ríkisstjórnina muni rísa gegn ofbeldinu, „hér eftir sem hingað til“. Ég man nú reyndar ekki eftir sterkum viðbrögðum íslenska ríkisins gegn nokkru ofbeldi nokkursstaðar. Ekki einu sinni því sem þrífst inni á íslenskum heimilum.
Ögmundur kemst vel að orði sem endranær. Bendir m.a. á að 70% Ísraelsmanna vilji frið. Hinn almenni Gyðingur vill ekki drepa Palestínumenn heldur semja við þá. Aðeins lítill hluti þeirra leggur blessum sína yfir þá gengdarlausu slátrun og mannréttindabrot sem Íslendingar og flestar aðrar þjóðir hafa sameinast um að styðja með aðgerðarleysi sínu.
Lesandi góður. Ef þú hefur nennt að lesa svona langt hefur þú líklega annaðhvort verið á Lækjartorgi í hádeginu eða viljað vera þar en ekki átt heimangengt. Af teljaranum mínum má nefnielga ráða að af þeim 250 manns sem líta á síðuna mína daglega séu um 210 sem eru aðallega að tékka á skoðun minni á typpum, píkum og trúmálum. Ég vek athygli á því að ég á ennþá óselda bæði sál og líkama. Hvort tveggja brúkhæft til bæði trúarlegra og kynferðislegra athafna. Endilega segið þeim sem ekki lesa pólitíska geðbólgu mína frá því.
Orðið tittlingaskítur er mér ofanlega í huga þessa dagana. Af mörgum ástæðum.
Allt er í heiminum táknrænt.
———————————–
Ég var hissa hvað ég kannaðist við marga. Fannst líka sorglegt að það virtust færri mæta á fundinn í dag en mættu á Pray Pride í vetur.
Posted by: Kalli | 5.03.2008 | 18:50:57
— — —
Æ hvað mér finnst alltaf vænt um þetta orð.
-Tittlingaskítur-
Allavega, ég var sofandi þar sem ég var á næturvakt og þar með löglega afsökuð 🙂
Ha det godt
Posted by: Hulla | 5.03.2008 | 20:10:21
— — —
Var upptekin vid mjaltir en hef huxad mèr ad sinna vel mìnum innri mótmælanda thegar thad fer ad vora örlìtid og dòttirin ordin meira ,,mòbæl“ – huxadi til ykkar, telst thad med?
Posted by: siggadìs | 5.03.2008 | 23:17:59
— — —
Besta mótmælatæknin er auðvitað sú að ala upp sjálfstætt og hugrakkt fólk. Besta leiðin til að pirra ríkisstjórnina er sú að kenna börnum sínum að hugsa.
Posted by: Eva | 6.03.2008 | 8:39:16
— — —
Er fólk ekkert í vinnu svona almennt? Ég var allaveganna í vinnu og gat ekki fengið frí til að far að mótmæla.
Posted by: lindablinda | 6.03.2008 | 9:07:47
— — —
Jú fólk er almennt í vinnu og oft kemst ég ekki sjálf á viðburði sem mig langar að mæta á.
Það er alls ekki við því að búast að öll þjóðin mæti á hverja einustu útisamkomu sem er haldin en það sem mér finnst svo merkilegt er að maður sér ALLTAF sömu andlitin og sjaldan mörg ný. Það eru alltaf sömu 300 hræðurnar (einn af hverjum 1000 íbúum landsins) sem skiptast á um að mæta á samkomur þar sem tilgangurinn er sá að hvetja stjórnvöld til einhverra aðgerða og það bendir ekki til þess að þetta fólk hafi meiri frítíma en aðrir, heldur til þess að meirihlutinn hafi lítinn áhuga og/eða telji ranglega að álit almennings skipti engu máli.