Dagbók frá 7. bekk 34

Mamma gaf mér bók sem heitir “andleg kreppa”. Það er svona sálfræðibók. Mér finnst gaman að lesa hana en ég skil ekki alveg af hverju mamma var að gefa mér hana. Ég held að hún vilji að ég haldi að hún sé í andlegri kreppu en ég held það ekki neitt. Hún er bara að kafna úr frekju og vill að allir hafi áhyggjur af sér. En hún er samt góð þessa dagana og ég ætti að vera þakklátari. Hún dekraði við mig á allan hátt þegar ég kom heim og Gunni líka.

 

Dagbók frá 7. bekk 25

Allt er ömurlegt. Freyja er farin heim af því hún fer til tannlæknis á morgun og Rósa er öll í strákunum og aldrei inni á harbergi og Silla og Sigga eru alltaf saman svo ég er alein, líka um helgar. Diddi talar ekki einu sinni við mig, eins og við vorum góðir vinir á mánudagskvöldið. Núna lætur hann sem hann sjái mig ekki. Mér er alveg sama um hann, leiðist bara að vera ein. Rósa er ekkert sæt en samt eru allir strákarnir utan í henni. Bara af því að hún er fyndin. Ég er ekki fyndin. Ég er bara háfleyg og engum finnst það neitt spennandi. Ég get ekki einu sinni verið fyndin þótt ég reyni það. En ég held samt að ég sé aðeins að grennast. Ég er allavega hætt að éta.

Voru landnámsmennirnir útrásarvíkingar?

Öndvegissúlur Ingólfs rak á land í Reykjavík og þar með hófst landnám Íslands. Frelsisþráin rak göfugustu menn Noregs til þess að sigla til eyjarinnar bláu í norðrinu og nema þar land. Þræla höfðu þeir vitaskuld og þá helst írska, en þeir fengu nú fljótt frelsi, í það minnsta fer litlum sögum af þrælahaldi nema hjá fyrstu kynslóð í landinu. Og höfðingjarnir stofnuðu Alþingi og fóru í víking og ortu drápur á milli þess sem þeir dunduðu sér við að höggva nágranna sína í herðar niður, ekki síst að undirlagi kvenskörunga, skráðu sögur og fræði á kálfskinn og urðu þjóð. Halda áfram að lesa