Það sem mér bara sýnist

Ég ætlaði að verða lögfræðingur. Fyrirmyndin var úr bíómyndum, málsvari réttlætisins í ætt við Matlock. Ég ætlaði reyndar líka að verða skáld og trúði því ekki að annað þyrfti endilega að útiloka hitt.

Seinna komst ég að því að flestir lögfræðingar eru aðallega rukkarar og lögmenn þurfa iðulega að verja skíthæla. Ég komst líka að því að flest skáld hafa viðurværi sitt af kennslu eða blaðamennsku. Um svipað leyti rann upp fyrir mér að flestir málsvarar réttlætisins eru alls ekki lögfræðingar og að mörg þeirra kvæða sem sungin eru áratugum og öldum saman eru ekki eftir fólk sem hafði tekjur af því að skrifa.

Og þá fór ég að hugsa um hvort maður þyrfti endilega að verða eitthvað. Hvort það væri kannski valkostur í stöðunni að gera bara það sem manni sýnist hverju sinni.

Og það gerði ég.

Kallinn með dauðablettinn

skalli-688x451

Afi og amma áttu vin sem mér fannst athyglisverður. Hann talaði skringilega og á nauðasköllóttum hausnum á honum var dæld eins og á höfði ungbarns, nema á öðrum stað. Ég vissi að börn fæddust með svona op á milli höfuðbeinanna og að sá hluti höfuðsins var svo viðkvæmur að það gat verið stórhættulegt að snerta hann. Halda áfram að lesa

Eskimóaskíturinn

Ég held að ég hafi verið 8 ára þegar lítill strákur af inúítaættum var gestkomandi í þorpinu í nokkra daga. Einhverju sinni var ég að leika mér við heimili skólasystur minnar ásamt fleiri krökkum og við heyrðum köll berast úr næstu götu, það var greinilega verið að stríða einhverjum. Ein stelpnanna spratt á fætur, svona líka glöð.

Halda áfram að lesa

Hvernig telur maður tvíbura?

Eru samvaxnir tvíburar eitt stykki eða tveir einstaklingar?

Fernir skór, fimm skópör. Fimm skór jafngilda ekki fimm skópörum.
Hinsvegar talar maður ekki um buxur sem par. Fernar buxur, fimm buxur. Líklega af því að buxur eru eitt stykki.

Eru fimm tvíburar fimm einstaklingar eða fimm ‘sett’ af tvíburum? Er það annað ef þeir eru samvaxnir? Eru samvaxnir tvíburar eitt stykki, líkt og buxur?

Gömul pizza

Pizzan er ekki ónýt þótt hún hafi verið þrjá daga í kæliskáp. (Ég hef í alvöru orðið vitni að því að fólk ætlaði að henda pizzu af því að hún var orðin lin.) Úðaðu hana með vatni (báðar hliðar) og settu hana á bökunarpappír í heitan ofn í 3-4 mínútur. Settu þá nokkra dropa af ólívuolíu yfir hana og bakaðu áfram þar til hún er heit í gegn.

Ef þú átt afgang af þunnri pizzu sem kemst fyrir á pönnu er líka hægt að hita hana þannig. Smyrja pönnuna með örlítilli olíu hita hana vel. Setja pizzuna á hana og taka pönnuna af hitanum. Ef pönnubotninn er ekki þykkur þarf að setja pönnuna á hita aftur en þá bara vægan.