Þegið

Ekki hef ég saknað þín
öll þessi ár
þótt eflaust
brygði andliti þínu fyrir

í draumi um ylhljóða hönd
lagða á öxl
þegar haustfuglar
hópuðust til farar.

Lítið hef ég saknað þín
og ég játa

kreppta hnefa
hvikul augu
og fyrirheit umfram væntingar.

En hér er ég mætt
til draums eða veruleika

og ég opna lófana,
loka augunum
legg höfuð mitt í keltu þína

og segi „jæja“.

Álög

Hér er fjöllin líkust svörtum sandhrúgum, flöt að ofan eins og krakki hafi klappað ofan á þau með plastskóflu og ná alveg fram í sjó. Stundum sér maður endur á vappi uppi í fjalli þar sem fjaran er engin. Þorpið kúrir undir fjallinu, sveipað grárri móðu hversdagsleikans jafnt sem móðu þokunnar. Hér er ljótt. Halda áfram að lesa

Ummyndun

Þú varst mér allt, þú varst mér lífið
sólarskin í daggardropa
logn í regni, rökkurblíðan
haustið rautt á greinum trjánna
tungl í myrkri, mönnum ofar
falskur eins og fjallabláminn

Ding!

Ding!!!

Ding! syngur veröldin,
ding!
Klingir þakrenna í vindinum,
ding!
Þaninn strengur við fánastöng,
ding!

Hringja bjöllur
í elskendaálfshjörtum
ding, ding!

Sett í skúffuna í febrúar 1991

Draumur

Stjörnum líkur
er smágerður þokki þinn.
Ég vildi vera ævintýr
og vakna í faðmi þínum,
kyssa fíngerð augnlok þín
og líða
inn í drauma þína
undir dökkum bráhárum.

Sett í skúffuna í janúar 1991

Stór

Einn morguninn
þegar ég vaknaði
var ég orðin stór.

Og lífið var húsbréfakerfi
og námslán
og kúkableyjur
og steiktar kjötbollur.

Og þarna úti
á prippsdósarbláum kvöldhimni,
dálítil rönd af tunglinu
og stjörnur.