Þegið

Ekki hef ég saknað þín
öll þessi ár
þótt eflaust
brygði andliti þínu fyrir

í draumi um ylhljóða hönd
lagða á öxl
þegar haustfuglar
hópuðust til farar.

Lítið hef ég saknað þín
og ég játa

kreppta hnefa
hvikul augu
og fyrirheit umfram væntingar.

En hér er ég mætt
til draums eða veruleika

og ég opna lófana,
loka augunum
legg höfuð mitt í keltu þína

og segi „jæja“.