Eins og laufblað

Eins og laufblað
sem feykist með vindinum
flýgur sál mín til þín.

En fætur mínir
standa kyrrir.

Ég þarf ekki að líta við til að vita hver það er sem kallar nafn mitt langt í burtu. Þessa rödd myndi ég þekkja úr þúsundum annarra, jafnvel eftir allan þennan tíma. Og eftir 30 ár, þegar þú verður orðinn gamall maður mun ég þekkja hana úr öðrum röddum gamalla manna. Og líka þá, eins og núna, mun ég líta snöggvast á þig og brosa litla kæruleysisbrosinu sem gefur til kynna góðlátlegt áhugaleysi. Tala við þig í hlutleysistón, svo þú skiljir að mér líki vel við þig en hafi samt misst áhugann á þér fyrir löngu. Já, þegar þú kallar nafn mitt úti á götu og ég á engan veginn von á að hitta þig, mun ég þekkja rödd þína og brosa. Brosa því brosi sem kemur í veg fyrir að þú heyrir að ég er með svífandi laufblöð í maganum og hjarta mitt syngur “ding!”.

Það er mildur haustdagur, rétt að byrja að rökkva. Laufin á trjánum orðin gul og farfuglar að hópa sig saman. Og með þyt vængja þeirra berst rödd þín neðan af Lækjargötu og upp í Þingholtin: “Frostrós! Bíddu Frostrós!” Og vindhviða feykir laufblöðum út í loftið.

Ég stoppa. Sný mér hægt við. Hjarta mitt verður gult laufblað og hendist af stað á móti þér. Ljósa hárið mitt síða sem þú ert svo hrifinn af, fýkur í átt til þín en fætur mínir standa kyrrir. Og hjarta mitt syngur “ding!” og aftur “ding! ding!” því þú hefur misst þig. Hleypur! Hleypur í áttina til mín og kallar nafn mitt og það er “ding!” í röddinni þinni og í augunum líka. Ha,ha! Stenst ekki Frostrós. Hleypur. Hleypur og hrópar, eins og ástfanginn unglingur. Og Frostrós stenst þig svosem ekki heldur.Og því skildi hún líka standast þig? Þig sem hefur þetta stóra, stóra bros sem nær yfir allt andlitið. Þig sem hefur spékoppa undir augunum og krúttlegan fæðingarblett bak við vinstra eyrað. Á maður endilega að standast slíkt, -og rödd þína líka?

Og nú ertu kominn alveg til mín, móður. Gengur hægt síðasta spölinn og strýkur hrokkið hárið frá andlitinu. Brosir. “Komdu sæl Frostrós.” Eiginlega of hátíðlega.
“Hæ!” segi ég, brosi kæruleysislega og sting höndunum í kápuvasana. Augu þín hlæja og það er óþægilega smitandi. Ég lít á fuglahóp sem flögrar fyrir ofan okkur svo mín augu fari ekki að hlæja líka. En þín augu hlæja ennþá. Skellihlæja. Samt ertu breyttur. Aðeins augu þín hafa alls ekkert elst.

Þú faðmar mig ekki. Enda býð ég svosem ekki upp á það. Slærð bara létt á öxl mína. “Ekki átti ég von á að sjá þig hérna, eftir allan þennan tíma”
“Lítið land” segi ég snaggaralega “hvernig þekktirðu mig svona úr fjarlægð?” Þú hlærð ekki bara með augunum í þetta sinn. “Dingið” í rödd þinni verður “ding, kling, ringaling” og fuglarnir fljúga og laufblöðin fjúka og hátt uppi á himninum kveikir rökkurengillinn á Síríusi og tunglið er hálft.
“Á göngulaginu manneskja,” svarar þú “hvaða kona önnur myndi passa sig að stíga ekki á strik?”
“Sést það?” (andskotinn)
“Sést það?” Þú grípur um axlir mínar. “Já, stelpuskott, það sést. Ég myndi þekkja þig hvar sem í heiminum, bara á göngulaginu. Getum við ekki farið eitthvert? Fengið okkur kaffi eða eitthvað? Eða ertu kannski upptekin?”
“Nei, ekki svo. Við getum farið heim til mín ef þú vilt.” Ég sveifla orðunum kæruleysislega í kringum mig og reyni að láta “dingið” ekki heyrast í gegn. Þú tekur um axlir mínar og við göngum rólega heim.

“Þú hefur breyst heilmikið Þröstur” segi ég á leiðinni.
“Nú? Hvernig þá?”
“Þú ert t.d. orðinn gráhærður.”
“Ég er nú ekki alveg gráhærður Frostrós” segir þú með nokkrum þótta sem satt að segja gleður mig ósegjanlega. “En tíminn líður, mikil ósköp. Ætli séu ekki orðin ein sjö eða átta ár síðan við höfum sést?”
“Jú, eitthvað svoleiðis hugsa ég.”
“Þú ert þá hvað, -tuttuga og fjögurra eða fimm?”
“Tuttugu og fimm.”
“Vá! Þá ertu líklega orðin stór.”
“Já. Ég er orðin stór og þú ert orðinn gamall. Fjörutíu og eitthvað er það ekki?”
“Þrjátíu og níu. Ég segi nú kannski ekki gamall!”

Ekki gamall nei? Ekki kannski gamall? Manstu virkilega ekki neitt? Manstu ekkert eftir því hvernig þú hristir mig og hrópaðir; “hlustaðu á mig Frostrós! Hugsaðu ú t í það. Þegar þú verður þrítug þá verð ég 45 ára. Ég verð orðinn gráhærður. Kannski með skalla og ístru líka. Ég verð orðinn gamall karl þegar þú verður fertug.” Nei þú manst líklega ekkert eftir þessu og sé svosem ekki ástæðu til að rifja það upp núna. Nóg önnur tækifæri til að vera vond við þig.

Engillinn góði hefur kveikt á fleiri stjörnum. Einhversstaðr eru kettir að slást. Krakkar í Þingholtunum að tínast heim til að borða og himinteppið hans Guðs verður blátt og ennþá blárra þegar þú segist vera skilinn við konuna þína.
“Jæja. Var Barbí orðin þreytt á framhjáhaldinu í þér?”
“Frostrós þó!” segir þú ásakandi “Þú mátt ekki kalla hana Barbí, þótt þér líki ekki við hana.”
“Jæja” segi ég “þú getur þá kannski útskýrt það fyrir mér, hver er munurinn á henni Guðrúnu og Barbídúkku?”
“Hún er ekki eins tóm og þú heldur.”
“Nei, líklega ekki. Hún hefur allavega sýnt það framtak að losa sig við þig. Það átti víst enginn von á því að hún mannaði sig upp í það.”
“Það var nú reyndar ég sem vildi skilja.”
“Nú! Svo það er þá enginn munur?”
“Æ, góða…”
“Nei” segi ég og tek tvo eða þrjá snúninga á miðri götunni, “hún er náttúrulega ekki alveg eins. Barbídúkkan hefur það fram yfir hana að halda kjafti um hluti sem hún ber ekki skynbragð á.”
Þú stoppar. Grípur í handlegginn á mér og stoppar mig í miðjum snúningi. Lítur á mig, syngjandi augum, laufblöðin dansandi yfir fætur okkar og Síríus hlær.
“Þú ert ENNÞÁ afbrýðisöm!” Ég slít mig lausa og fýk frá þér eins og laufblað sem dansar í vindinum, hlæ góðlátlega.
“Ne-hei, það er ég sko ekki. Vertu viss. En segðu mér Þröstur; fyrst þér finnst í alvöru eitthvað spunnið í hana, hvers vegna fórstu þá frá henni?”
“Fer maður bara frá þeim sem er ekkert spunnið í?” spyrð þú, og einhvernveginn smýgur spurningin óþægilega undir kápuna mína.

Það eru laufblöð, gul og rauð í tröppunum niður í kjallaraíbúðina mína. Í forstofunni þrífur þú utan um mig og heldur fast. Og inni í mér verð ég líkust gulu laufblaði sem hangir á trjágrein og er alveg að losna. Og veit ekki hvað það vill. Vill bæði sitja kyrrt á greininni og fjúka stjórnlaust burt með vindinum sem togar í það, rykkir, aftur og aftur.
“Ætlarðu ekki að heilsa mér almennilega?” segir þú
“Ég sagði hæ áðan” segi ég, smeygi mér úr örmum þínum og steðja inn í eldhúsið. Þú kemur á eftir mér, krýpur við fætur mér á gólfinu, heldur um mjaðmirnar á mér, grefur andlitið á milli læra minna á meðan ég moka kaffi í pappírpoka. Finn heitan andardrátt. Man.

Langt síðan. Ég stóð upp við vegg í vinnustofunni þinni. Lykt af terpentínu og olíulitum. Stóðst upp. Komst til mín. Lagðist á hnén fyrir framan mig. Þrýstir mér snöggvast að þér. Bara smástund. Stóðst svo upp aftur og fórst að mála. Málaðir og málaðir. Eins og vitlaus maður. Fórst ekki heim í mat. Fórst ekki heldur heim að sofa. Bara málaðir alla nóttina. Og ég horfði á þig. Þorði ekki að trufla þig. Gat ekki farið. Og þegar þú hættir loksins að mála, einhverntíma undir morguninn, fór ég úr fötunum, tók í hönd þína og dró þig niður á gólf. Gerði það sem þú málaðir. Seinna um daginn málaðiru yfir það. Brennandi hús.

Ég slít mig lausa en geri það varlega.
“Það eru bara hundar, Þröstur, sem stinga trýninu í klofið á fólki og hnusa” segi ég í kennslukonutón, með hæfilegri vandlætingu en þó án uppnáms, um leið og ég kveiki á kaffivélinni.
“Mér finnst þessi lykt góð” umlar þú og snýrð svo talinu að viðfangsefnum síðustu 8 ára.
Kaffilykt í loftinu og ég sýni þér teikningar og krítarmyndir sem þú skoðar með raunverulegri athygli og gagnrýnir jákvætt; “Hey stelpuskott, þú ert bara orðin helvíti góð!”

Einu sinni sátum við saman í vinnustofunni þinni með fullt af teikningum á borðinu og þá voru hendur okkar alltaf óvart að snertast enda þótt væri nóg pláss. Það er nefnilega einhvernveginn þannig með hendur. Stundum. En þá drukkum við ekki kaffi, heldur rauðvín og vissum bæði að það yrði auðvelt að kenna því um.

Kannski hefðum við aldrei kynnst ef við hefðum búið í stærri bæ. En í svona litlum bæ skeður svo lítið og mér leiddist ósköpin öll. Ég bankaði upp á og spurði hvort ég mætti sjá. Fyrst tók ég bara eftir myndunum. Fékk að prófa litina þína. Þú sagðir mér að gæta þess að fá ekki lit í hárið. Sóttir hreina tusku sem þú reifst niður og bast hárið á mér í tagl með henni. Og snertir hálsinn á mér að aftan. Bara svona ofurlétt. Með fingurgómunum. Það var þá sem ég sá þig. Og sagði þér að ég yrði ein heima.

Ég fór smámsaman að venja komur mínar á vinnustofuna. Kom kannski aðallega til að horfa á þig, en það hef ég auðvitað aldrei sagt þér. Það var eitthvað við þessa skringilegu spékoppa undir augunum. Og það var svo gaman að horfa á þig vinna. Sjá svipbrigðin, drættina kringum munninn. Teikna þig. Ég fékk “ding!” í hjartað þegar þú sagðist vilja sjá myndirnar mínar. Tók með mér rauðvínsflösku sem ég hafði mikið fyrir að komast yfir og batt hárið í tagl. Og svo flekaði ég þig.

“Mannstu hvernig ég fór að því?”
“Var það ekki ég sem flekaði þig?”
“Nei. Ég lét þig byrja. Lét einn lokk vera lausan svo þú sæir ástæðu til að laga hann.”
“Nornin þín!”

Og þú greiddir mér. Og straukst svo fingurgómunum um hálsinn á mér og hnakkann. Bara varlega. Lagðir lófa á hnakkann á mér. Heitan lófa.

“Það var samt þér að kenna! Þú varst fullorðinn og áttir ekki að láta þetta ganga svona langt fyrst það risti ekki dýpra” segi ég og heyri ásökun í röddinni og finn augun verða hörð og hvöss.
Hláturinn er horfinn úr rödd þinni og augum. Þú ert alvarlegur, næstum biðjandi á svipinn.
“Víst risti það djúpt. Þú varst bara svo ung ” segir þú lágt.
“Jæja góurinn” segi ég háðslega. “Og ef það risti svona djúpt, af hverju fluttirðu þá suður?”
“Látt´ekki svona Frostrós. Þú varst alger plága. Þú veist það sjálf.”
Þögn.
“Komdu hingað stelpa. Það er of langt á milli okkar. Komdu, gerðu það.”
Ég hlæ. “Ókey, ef þér líður eitthvað betur með það þá get ég svosem alveg komið nær þér” Ég sest hjá þér í sófann og þú tekur utan um mig. Varir þínar leita minna. Ég ýti þér frá. Varlega. Án andúðar.
“Ég vil ekki kyssa þig Þröstur. Við skulum bara vera vinir.”
“Af hverju viltu ekki kyssa mig?” segir þú, meira hissa en svekktur. Já, þú trúir því víst enn að ég ætli að fljúga í fangið á þér eins og laufblað sem feykist með vindinum.
“Af því þú kannt ekki að kyssa.” segi ég hvasst. “En þú mátt samt alveg greiða mér ef þig langar ” bæti ég við eins og til að draga úr grimmdinni.

Þú verður auðvitað grútspældur.
“Hvað áttu við með því að ég kunni ekki að kyssa?”
“Þú bara kannt það ekki. Þú kyssir svo blautt.”
“Svo blautt? Ertu að segja mér að þú hafir ekki fengið tungukoss hjá neinum öðrum?”
“Nei, ég er ekkert að segja það. En þú slefar.”
Ég stend upp og sæki hárteygju og greiðu á meðan þú meltir móðgunina.

“Gott og vel. Þú ert sennilega hrædd um að ég særi þig. Ég get ekki annað en virt það”
“Djöfull ertu ánægður með þig asninn þinn. Ég er ekki rassgat hrædd um að særast. Mér finnst bara vont að kyssa þig. That´s all.Get alveg riðið þér fyrir því.” Ég sest á gólfið fyrir framan þig og rétti þér burstann.
“Greiddu mér fyrst. Svo skal ég gefa þér mercy-fuck” segi ég. Ég halla höfðina aftur og þú greiðir hárið mitt síða, eins á á að greiða stelpuhár, frá endunum og upp, greiðir í hálft tagl frá andlitinu svo hárið flæðir samt sem áður í lokkum yfir axlir mínar.
“Viltu gera dálítið fyrir mig” hvíslar þú og ég finn varir þínar bak við eyrað. “Dálítið sem þú vildir aldrei í gamla daga. Viltu dansa fyrir mig?”
“Nei.”
“Seinna kannski?”
“Nei, ekki heldur.”
“Af hverju ekki?”
“Suma hluti gerir maður bara fyrir einn mann í lífinu” segi ég og stend upp til að sjóða spaghetty.

Stan Getz og kertaljós. Það er erfitt að borða spaghetty fallega, allavega ef einhver annar matar mann. Þú vefur spaghettylengjunum upp á gaffalinn. Sumt fer upp í mig en sumt út á kinn.
“Oj, hvað við erum subbuleg” segi ég hlæjandi.
“Dansaðu fyrir mig. Subbustelpa.”
“Nei.”
“Af hverju ekki? Slefa ég kannski líka með augunum?”
“Það er bara þannig að suma hluti gerir maður bara fyrir einn mann í lífinu.”
“Og ég er ekki hann?”
“Nei. Hreint ekki.”
“En þú ert samt að káfa á mér”
“Mmmm. Ég sagði að þú gætir fengið mercy-fuck.”
“Þegiðu fíflið þitt. Þér finnst það gott.” segir þú.
“Já. Dáltið gott. -Kannski.”

Og svo liggjum við í hrúgu á eldhússgólfinu. Ég er klístruð á maganum.
“Fara langdregnar samfarir ennþá svona mikið í taugarnar á þér” segi ég og stend upp og teygi mig í eldhússurúllu.
Þú þegir dálitla stund. Klæðir þig þegjandi og sest svo við eldhússborðið.
“Veistu, ég ætlað að segja þér dálítið. Gefa höggstað á mér. Málið er; ég þoli glósurnar í þér ekki eins vel og áður. Maður meyrnar með aldrinum. Nema þú. Þú ert kaldari en nokkrusinni fyrr.”
“Ertu sár?”
“Svolítið.”
“Sorrý. Ég hafði ekki hugsað mér að særa þig” lýg ég.
“Ég þarf líklega bráðum að fara að koma mér” segir þú. En samt eins og í spurnartón. Eins og þú sért hálfpartinn að vonast efir mótmælum.
“Já” segi ég í hlutlausa tóninum.
“Ég hringi í þig.”
“Æ, góði vertu ekki að því.”
“Nú?” Þú horfir á mig aldeilis hlessa, með opinn munn og allt. “Og hvað var þetta þá?” spyrð þú forviða. Rétt eins og þú hafir aldrei heyrt þess getið að fólk stundi kynlíf sér til afþreyingar eingöngu.
“Hvað var þetta?” segi ég “Hvað hélstu? Að ég ætlaði að giftast þér og eignast með þér börn? Grow up Þröstur. Ég er bara samskonar drusla og þú sjálfur. Finnst bara gott að ríða. Flóknara er það nú ekki. Eða er það kannski eitthvað flóknara hjá þér?” Þú horfir á mig vantrúaður.
“Ekki flókið kannski. En ég hélt að við værum allavega vinir.”

Jú,jú. Mikið rétt. Við vorum vinir. Alveg perluvinir. Koddavinir meira að segja. Fíflið hún Guðrún hélt að þú værir að kenna mér. Varð meira að segja voða stolt þegar þú tókst mig með þér suður til að skoða sýningar og söfn. Sagði öllum að þú værir að gera úr mér listamann. Engin leið að koma þessum hálfvita í skilning um að henni væri ofaukið í lífi okkar. Og svo gekk ég of langt.
“Í guðsbænum Frostrós hættu að hringja svona í mig í tíma og ótíma!”
“Ég elska þig.”
“Þú mátt ekki fitla svona við hárið á mér fyrir framan Guðrúnu.”
“Ég elska þig.”
“Frostrós! Hvað heldurðu að fólk segi? Þú ert góður teiknari. Allir sem sjá þessa mynd þekkja okkur á henni.”
“Ég elska þig.”
“Ekki klóra mig svona stelpa. Hættu segi ég!”.
“Ég elska þig.”
“Ertu snarvitlaus stelpa! Að koma heim til Guðrúnar til að skila bindinu mínu, -þú gengur of langt!”
Já. Ég gekk of langt. Þú fluttir suður. Flúðir.

“Kannski risti það ekki sérlega djúpt”
“Hrædd við að hleypa mér of djúpt?”
“Nei. Ég bara nenni ekki að flækja mig í þér aftur.”
“Hrædd um að særast?”
“Æ, góði vertu ekki svona hrifinn af sjálfum þér. Þú ert hreint ekkert ómótstæðilegur.”
“Jæja vinan. Ég ætla að skilja heimilsfang og símanúmer eftir hjá þér. Þú ræður hvað þú gerir við það.”

Þú skrifar á blað og ég horfi út um gluggann. Það er farið að rigna og vindurinn feykir blautum laufblöðum upp af stéttinni og lemur þeim utan í rúðu kjallaragluggans.
“Það stendur ”Lilja“ á bjöllunni” segir þú um leið og þú ferð í frakkann.
“Lilja?”
“Mmmm. Ég leigi hjá henni. Einstæð móðir.”
“Ó?” segi ég í eins hlutlausum tón og mögulegt er, stari enn út um gluggann. Horfi á laufblað hníga til jarðar og setjast á upplýsta stéttina fyrir utan. Af einhverjum dularfullum ástæðum sem ég kann ekki vel að skýra er horfið þetta einkennilega “ding!” sem hljómaði í hjarta mér allt kvöldið.
“Jamm. Ódýrt. beggja hagur. Hún er fín.”

Ég fylgi þér til dyra.
“Ókey. Bless þá” segi ég og brosi glaðkæruleysislega. “Gangi þér vel” bæti ég við þegar þú tekur ekki undir kveðjuna.
Þú lítur á mig í síðasta sinn og nú sé ég að einnig augu þín hafa elst. Ég horfi á eftir þér upp kjallaratröppurnar, út á götuna og hverfa fyrir horn.

Nei Þröstur. Ég dansaði ekki fyrir þig þá og það geri ég heldur ekki núna. Því suma hluti gerir maður aðeins fyrir einn mann í lífinu. Við hittumst á götu í dag. Af hreinni tilviljun. Það eru sjö ár, níu mánuðir og fjórtán dagar síðan við sáumst síðast. Þú ert 39 ára og 8 mánuðum betur. Ég er 25. Það gerist ýmislegt á svona löngum tíma. Ég hef kynnst öðrum mönnum. Sætum strákum sem eiga enga konu og kyssa vel. Því þú bara kannt ekki að kyssa. Og þú ert líka skítakarakter Þröstur, það ertu, því ég elskaði þig og þú vissir það frá upphafi. Þú vissir að hverju þú gekkst og þú hljópst frá því.

En eitt hef ég aldrei sagt þér Þröstur og mun heldur ekki segja þér nú; nú þegar þú stendur í dyrunum mínum og tíminn hefur gert þig meyran. Því frostrósir eru kaldar, já, en þær lifa stutt. Og ef þú leggur heitan lófa þinn á frostrósina deyr hún. Verður ekkert nema vatnspollur í gluggakistu og þornar svo upp. Því segi ég þér það ekki, svo þú leggir ekki heitan lófa þinn á Frostrós, segi það ekki, ekki nú og aldrei: Það hefur enginn fengið að greiða mér nema þú.

Sett í skúffuna í september 1991