Látinn

Flóttamaðurinn sem kveikti í sér er látinn. Hvað ætli þurfi mörg svona tilvik til þess að ríkisstjórnin (við erum enn með ríkisstjórn) komist að þeirri niðurstöðu að það sé eitthvað athugavert við stefnu hennar í útlendingamálum?

Undarleg skólastefna

Jón Gnarr vill að bólusetningar verði forsenda fyrir skólavist.

Það er nú reyndar skólaskylda á Íslandi svo ef Gnarrinn á líka við grunnskólana þá þyrftu sveitarfélögin líklega að bjóða upp á sérskóla fyrir óbólusett börn. Það væri nú áhugavert að heyra álit MDE á þeirri hugmynd að synja börnum um skólavist eða reka annarskonar aðskilnaðarstefnu. Nei ég er ekki að mæla því bót að foreldarar láti ekki bólusetja börn en Jón þarf að hugsa þetta betur.

Valkvíði

Fyrstaheimsvandamálin eru að ríða okkur Eynari á slig. Nú er lítrinn af Bombay gini á 18 pund í Sainsbury´s og lítrinn af Tangueray gini er á 16 pund hjá Morrisons. Við eigum hinsvegar þvílíkan lager af gini að það væri bara rugl að kaupa meira. Og af þessu getum við lært að annað hvort drekkum við ekki nóg, eða þá að þið hin komið ekki nógu oft í heimsókn.

Enn um nefnd um dómarastörf

Ætlar enginn blaðamaður að spyrja Nefnd um dómarastörf, hvað þurfi eiginlega til þess að hún synji dómara um heimild til að taka að sér aukastarf eða eiga hluti í félögum? Jafngildir tilkynning því að heimild sé fengin? Hefur nefndin svomikið sem tekið það fyrir á fundi hversu viðeigandi það sé að dómarar eigi tugi milljóna í hlutabréfum? Þurfa dómarar að reka smálánafyrirtæki eða eitthvað álíka til þess að nefndin sjái ástæðu til að segja a-hemm …?

Gögnin í skókassa?

Formaður nefndar um dómararstörf segir að gögnin í máli Markúsar Sigurbjörnssonar hafi hafnað heima hjá fyrrverandi formanni

Vonandi sér næsti innanríkisráðherra til þess að nefnd um dómarastörf fái skúffu undir dótið sitt. Það er bara ekki traustvekjandi að gögn slíkrar nefndar skuli vera geymd í skókassa undir rúmi formannsins.

Hvað ætli sé annars mikið um fyrirkomulag af þessu tagi í stjórnsýslunni og dómsýslunni? Geyma hinar ýmsu úrskurðarnefndir skjölin sín í kössum úti um allan bæ? Hvað með nefndir Alþingis? Eru þeirra gögn líka í fórum formanna nefndanna?

Hvernig væri annars að banni við aukastörfum og félagaeign dómara væri framfylgt og undantekningar skýrðar þröngt? Hvað ef þeir sem þurfa hærri tekjur en einföld laun dómara yrðu bara að vinna fyrir einhvern annan en ríkið? Eins og er eru flestir dómarar með ýmis aukastörf. Sem er enganveginn í lagi því Hæstaréttardómarar eru að dæma að jafnaði í 2 málum á dag og segir sig sjálft að það er varla vandað til verka þegar álagið er svo mikið.

Dómarar eru á ágætislaunum og þurfa ekki að búa í helli þótt þeir standi ekki í verðbréfabraski. Dómarar eiga að fá leyfi fyrir mikilli hlutabréfaeign, þannig eru nú bara reglurnar. Og Nefnd um dómarastörf ætti að framfylgja þeim.

 

Uppfært 6. des

„… en mér finnst þú sko svolítið gera mikið úr mikilvægi þessarar nefndar [um dómarastörf] og þessarar skráningar, fyrir hæfi dómara.“ Sagði formaður Dómarafélags Íslands, í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Jákvæðnihættan

Maðurinn minn er að hóta að vera jákvæður á FB. Ef það hefur þau áhrif að hann taki upp á því að nöldra heima (við erum ekki með bíl í Glasgow og hann nöldar eingöngu á netinu og undir stýri), þá neyðist ég til að pósta einhverju sem gengur fram af honum. Þannig að ef ég tek allt í einu upp á því að tala vel um Framsóknarflokkinn eða halda því fram að súkkulaði sé óhollt – þá þýðir það ekki að ég sé búin að missa glóruna, heldur bara aðgerð til að viðhalda sæluástandi á heimilnu. Til þess eru kommentakerfin að kverúlantast.