Gögnin í skókassa?

Formaður nefndar um dómararstörf segir að gögnin í máli Markúsar Sigurbjörnssonar hafi hafnað heima hjá fyrrverandi formanni

Vonandi sér næsti innanríkisráðherra til þess að nefnd um dómarastörf fái skúffu undir dótið sitt. Það er bara ekki traustvekjandi að gögn slíkrar nefndar skuli vera geymd í skókassa undir rúmi formannsins.

Hvað ætli sé annars mikið um fyrirkomulag af þessu tagi í stjórnsýslunni og dómsýslunni? Geyma hinar ýmsu úrskurðarnefndir skjölin sín í kössum úti um allan bæ? Hvað með nefndir Alþingis? Eru þeirra gögn líka í fórum formanna nefndanna?

Hvernig væri annars að banni við aukastörfum og félagaeign dómara væri framfylgt og undantekningar skýrðar þröngt? Hvað ef þeir sem þurfa hærri tekjur en einföld laun dómara yrðu bara að vinna fyrir einhvern annan en ríkið? Eins og er eru flestir dómarar með ýmis aukastörf. Sem er enganveginn í lagi því Hæstaréttardómarar eru að dæma að jafnaði í 2 málum á dag og segir sig sjálft að það er varla vandað til verka þegar álagið er svo mikið.

Dómarar eru á ágætislaunum og þurfa ekki að búa í helli þótt þeir standi ekki í verðbréfabraski. Dómarar eiga að fá leyfi fyrir mikilli hlutabréfaeign, þannig eru nú bara reglurnar. Og Nefnd um dómarastörf ætti að framfylgja þeim.

 

Uppfært 6. des

„… en mér finnst þú sko svolítið gera mikið úr mikilvægi þessarar nefndar [um dómarastörf] og þessarar skráningar, fyrir hæfi dómara.“ Sagði formaður Dómarafélags Íslands, í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.