Kveðja frá tukhússlimnum

Tengdadóttir mín tukthússlimurinn fékk engan frest til að ákveða hvað hún vildi gera. Henni var birtur dómurinn og þurfti samstundis að ákveða hvort hún ætlaði að borga sektina eða sitja hana af sér (á launum). Ekki svo að skilja að það hafi nokkurntíma hvarflað að henni að borga hundraðkall í sekt fyrir borgaralega óhlýðni en mér fannst ótrúlegt að það væri bara talið gott og gilt að stilla einhverjum svona upp við vegg, án nokkurs réttar til áfrýjunar eða umþóttunar. Ég er nú búin að líta aðeins yfir lögin og sé ekki betur en að í þessu ríki frelsis og réttlætis sé fullkomlega löglegt að fara svona með pólitíska fanga.

Byltingin fékk leyfi til að heimsækja hana í gær og hún lætur vel af sér. Hún er á Skólavörðustígnum, ein kvenna og fær ekkert samneyti að hafa við hina fangana en hún hefur nóg lesefni og ver miklum tíma til yogaæfinga. Hún biður að heilsa öllum vinum sínum á Íslandi.

Ekki volgt, blautt og guðdómlegt -ekki enn amk

Ég lofaði volgu blautbloggi ef ég fengi rök en eitthvað hefur gredda lesenda legið í láginni.

Mikið er ég farin að hlakka til að komast í frí. Alexander er í síðara sumarfríinu sínu núna svo ég er alveg bundin yfir búðinni. Ég er orðin mjög þreytt, ekki af því að sé svo brjálað að gera heldur af tilbreytingarleysi. Það er ekki hollt að búa á vinnustaðnum.

En þetta stendur til bóta. Ég flyt um mánaðamótin og fer svo út að hitta Pysjuna mína í ágúst. Eða Lundann minn öllu heldur. Hann er, held ég, skriðinn úr holunni. Þegar ég kem aftur verður Drengurinn sem fyllir æðar mínar af Endorfíni fluttur til fyrirheitna landsins og Byltingin að lesa anarkistabókmenntir á dagpeningum í boði ríkisins. Miðað við hans lífsstíl mun hann snúa þaðan auðugur maður og giskið bara á hvaða hreyfingu hann mun gefa dagpeningana sína. Múhahahaha!

Sætt

Einu sinni átti ég kærasta í nokkrar vikur. Hann sleit sambandinu af því að hann ætlaði að verða svo mikill vísindamaður og það er víst ekki hægt ef kærastan manns á börn. Sagði mamma hans.

Í morgun rakst ég á hann fyrir tilviljun. Hann er kennari úti á landi.

 

Brúðkaup í fjölskyldunni

Í dag ætlar systir mín að giftast manninum sínum en þau hafa nú lifað í synd í 12 ár.
Til lukku með það og góða skemmtun í partýinu. Vonandi fáið þið fínt veður en það er víst fullseint að óska ykkur margra barna eða margra gæludýra. Ég óska þess allavega að hjónaband ykkar endist ennþá lengur en óvígða sambúðin og þið verðið rík og hamingjusöm.

Mér finnst voða skrýtið að giftast eftir margra ára sambúð með barnauppeldi og öllu tilheyrandi. Dálítið eins og að ættleiða barnið sitt. Ennþá undarlegri finnst mér sá ameríski siður að endurgiftast. Eins og hafi verið virkilegt vafamál að fólknu væri alvara í fyrra skiptið. Mér finnst margt skrýtið sem öðrum finnst rökrétt. Eða kannski finnst öðru fólki skrýtið að vilja endilega hafa allt rökrétt.