Flassbakk

Ég var smeyk við ryklóna sem læddist vofum lík með veggjum, faldi sig bak við húsgögnin og kom ömmu minni í uppnám. Froðudreggjarnar í baðinu voru skrímslabörn sem gátu breytt um lögun og niðurfallið gat klipið litlar telpur í tærnar og dregið þær niður í skrímslaheiminn þar sem allt var fullt af hræðilegri hvítri froðu. Um jólin lá mannkindin meinill í myrkri þvottahússins og læsti vígtönnum sínum í börn sem gengu framhjá þvottahússdyrunum.

Magnús Bjarnfreðsson var skrýtinn platkall, fastur í sjónvarpinu en kannski gat hann komist út í gegnum hátalarana og falið sig undir rúminu svo ég til öryggis þakti ég rifur hátalaranna með bláum límmiðum af Chiquita banönum.

Í þá daga voru borðtuskur búnar til úr nautum (allavega kallaði mamma hana lífsförunaut) og rúsínur úr köngulóm. Ég litaði sjóinn rauðan af því að rautt var stelpulitur, og Ísland var eins og laugardagur í laginu.

Gargandi snilld

Ég vil endilega vekja athygli á málfarspistlum Sverris Páls Erlendssonar.

Sverrir Páll kenndi mér íslensku í MA, mér leiddist aldrei í tímum hjá honum.
Í síðustu færslu segir hann frá orðum sem hann hefur ljáð nýja merkingu og umfjöllun hans rifjaði upp fyrir mér snilldarþýðingar Matthíasar Viðars á orðunum nekrófílía og nekrófíll.

Nekrófíll er samkvæmt þýðingu Matthíasar návinur og nekrófílía er líkþrá eða líkyndi.
Er nokkur furða þótt ég hafi dýrkað þennan mann?

Mig rámar líka í atriði úr kvikmynd en kem ekki fyrir mig hvaða mynd, hvað þá hver þýðandinn var. Einhver hélt að Moby Dick væri kynsjúkdómur. Í þýðingunni varð hvíti hvalurinn að þúfutittlingi. Þetta finnst mér dásamleg þýðing.

Skil ekki skattinn

Ég fékk endurgreiðslu frá skattinum í haust og það var út af fyrir sig ánægjulegt. Mér finnst hinsvegar furðulegt uppátæki hjá skattinum að borga meira en ég á inni í ágúst og nóvember og rukka mig svo um mismuninn, sem ég borga með jöfnum greiðslum í september, október og desember. Veit einhver hvaða rök eru fyrir þessu fyrirkomulagi?

Eitt lítið um fréttamennsku

Ég játa að ég tek öllu sem DV segir með fyrirvara, þar á bæ er vönduð fréttamennska ekki höfð að leiðarljósi. Og ef það er ósatt sem kemur fram í helgarblaði DV um Vesturbæjarmálið, þá vona ég sannarlega að viðkomandi blaðamaður verði dreginn fyrir dóm. Það er í hæsta máta ábyrgðarlaust að gaspra um svona mál.

 

Kartafla borin fram með bl

Við skrifum ekki eins og við tölum og við tölum ekki eins og við skrifum. Hikum því aldrei við að leiðrétta börnin okkar þegar við verðum þess vör að þau taka upp stafsetningarframburð á orðum sem þau þekkja illa. Því miður er regla fremur en undantekning að Íslendingar undir fimmtugu, beri dýflissa fram með fl í stað bl. Hygg ég að ástæðan sé sú að flest okkar lærðu þetta orð af bókum. Undarlegra er hversu algengt er að kartafla sé borið fram með fl í stað bl.

Samstafan fl í miðju orði og enda orðs er borin fram sem bl í íslensku. Skófla, fífl, efla, og tafl eru öll borin fram með bl og ég vona að svo verði áfram. Það koma vöblur á mig, ef mér er varpað í dýblissu og gert að eta kartöblur. Fyrir alla muni stafsetjum þessi orð samt með fl, hér eftir sem hingað til.

 

Forðumst óorð

Ég er ósátt við aukna tilhneigingu til að nota forskeytið -ó þótt þess sé engin þörf. Ég sé ekki hagræði í því að nota orð á borð við óáhugasamur í stað áhugalaus eða óumhyggjusamur í stað umhyggjulaus.

Fleiri dæmi eru til um hörmulegar samsetningar orðhluta en þessi forskeytistilhneiging kemur áreiðanlega sterkast fram í ó-inu. Ég hef t.d. heyrt orðið óábyrgðarfullur! Er eitthvað erfiðara að segja ábyrgðarlaus eða óábyrgur en að búa til orðskrípi sem er samsett úr forskeyti, nafnorði og lýsingarorði?

Ég skil tilhneiginguna til að einfalda málið. Þessi sérkennilegu ó-orð eru hins vegar hreint ekki dæmi um einföldun. Þvert á móti er verið að flækja málið með þessum óskunda. Bætum ekki óþarfa ó-orðum í tunguna. Það gæti komið á hana slíku óorði að fólk veigri sér við að læra hana vel.

Hver er þessi dularfulla stærðargráða?

Oft er viðeigandi að nota formlegt málfar fremur en hversdagslegt. Hins vegar er það alrangt sem sem sumir virðast álíta, að formlegt málfar eigi helst að vera uppskrúfað, jafnvel nánast óskiljanlegt. Dæmi um uppskrúfað og illskiljanlegt orð sem gjarnan er notað í fjölmiðlum er orðskrípið stærðargráða. Veit einhver hvernig stærðargráður eru reiknaðar? Hversu stórt er hús af þessari stærðargráðu eða byggðarlag af þessari stærðargráðu? Er stærðargráðan alltaf „þessi“ eða getur skóli verið af stærðargráðunni 480 eða bygging verið af stærðargráðunni 25? Mér skilst að stærðargráða sé til sem stærðfræðihugtak en ég efast um að þeir sem nota þetta orð í daglegu tali og í fjölmiðlum hafi nokkra hugmynd um hvað stærðargráður eru eða til hvers þær eru notaðar.

Þegar við komum fram opinberlega skiptir meira máli að fólk skilji það sem við segjum en að það átti sig á því hvað við höfum mikinn orðaforða. Ef formlegt málfar er okkur óeiginlegt, tölum þá frekar venjulega íslensku.