Flassbakk

Ég var smeyk við ryklóna sem læddist vofum lík með veggjum, faldi sig bak við húsgögnin og kom ömmu minni í uppnám. Froðudreggjarnar í baðinu voru skrímslabörn sem gátu breytt um lögun og niðurfallið gat klipið litlar telpur í tærnar og dregið þær niður í skrímslaheiminn þar sem allt var fullt af hræðilegri hvítri froðu. Um jólin lá mannkindin meinill í myrkri þvottahússins og læsti vígtönnum sínum í börn sem gengu framhjá þvottahússdyrunum.

Magnús Bjarnfreðsson var skrýtinn platkall, fastur í sjónvarpinu en kannski gat hann komist út í gegnum hátalarana og falið sig undir rúminu svo ég til öryggis þakti ég rifur hátalaranna með bláum límmiðum af Chiquita banönum.

Í þá daga voru borðtuskur búnar til úr nautum (allavega kallaði mamma hana lífsförunaut) og rúsínur úr köngulóm. Ég litaði sjóinn rauðan af því að rautt var stelpulitur, og Ísland var eins og laugardagur í laginu.