Angur

Um áramótin ákvað ég að þetta ár ætlaði ég að gera allt sem mig langaði og ekkert sem ég vil ekki en það er ekki alltaf eins einfalt og ætla mætti.

Maðurinn, sem drakk ekki konuna sína frá sér heldur reið hana bara frá sér á fylliríi, hringir og segir mig langaði bara að heyra í þér röddina, og ég trúi honum. Ég er þekkt fyrir að vera kuldaleg í síma en hann veit að það er ekkert persónulegt, kannski af því að hann er sjálfur fjarlægur, með svarthol í sálinni og getur hvorki horft í augun á mér né snert mig ástúðlega nema vera hæfilega drukkinn. Hvernig sem á það er lítið er sálin í honum alltaf víðs fjarri hvort sem hann er mikið drukkinn, lítið drukkinn eða jafnvel ódrukkinn þótt ég þekki hann nú reyndar illa í því ástandi.

Ég hef velt því svo mikið fyrir hversvegna það sem virkaði með honum, svo langt sem það náði, virkar ekki með Rikka. Sem er, hvernig sem á málið er litið, mun heilbrigðari karakter. Ég held að það sé vegna þess að ég þoli fyllibyttum meiri leikaraskap en öðrum og kannski af því að fyllibyttur taka tilhneigingu minni til að fletta ofan af leikaraskapnum sem leikaraskap. Haffa hefur aldrei sárnað við freðýsuna í mér en Rikki þjáist og það er ekki það sem ég vil. Þegar allt kemur til alls er Haffi nógu veikur til þess að trúa því sjálfur, þegar sá gállinn er á honum, að hann hafi þörf fyrir nærveru mína fremur en annarra kvenna og svo sjúkt sem það er, fylgir því minni sársauki að eiga sjúkleg samskipti við fólk sem gerir ekki skýran greinarmun á ímyndun og veruleika.

Langar mig að fara til hans? Já. Langar mig að bíða þar til hann er sofnaður og laumast þá burt? Nei. Langar mig að vakna við hliðina á honum? Nei, alls ekki. Líklega langar mig þá í rauninni ekkert til hans. Mig langar bara að vera hjá karlmanni og ekki bara til að fara í rúmið með einhverjum því Rikki stendur sig prýðilega í því þótt honum finnist ég skrýtin.