Álög

Enskumælandi fólk býr til peninga. Íslenskan nær hinsvegar ekki yfir þá hugmynd. Íslendingar þéna peninga með þjónustu, afla fjár með líkamsafli sínu, eða græða fé á sama hátt og skóga, með því að sá og uppskera. Hugmyndin um uppskeru án útsæðis, erfiðis og þjónkunar við aðra er einfaldlega ekki til í málinu. Þegar Íslendingurinn er kominn með þóknunina, aflann eða gróðann í hendurnar, tekur hann til við að eyða honum. Jafnvel að sóa honum. Íslendingar verja ekki fjármunum til daglegra þarfa eða nota þá, heldur eyða þeim.

Orð síast inn í undirvitundina, móta hugmyndir okkar um veruleikann og gera okkur að því sem við erum. Ég hef þénað, grætt og aflað, oftast minna en mig langar til að eyða. Sennilega er hrifning mín á orðsifjafræði stóra ástæðan fyrir því hve sjaldan mér hefur tekist að búa til peninga úr engu og verja þeim til að búa til ennþá fleiri peninga.

Allt er í heiminum táknrænt. Það þurfti reyndar nokkuð leiðinlegt óhapp til að ég áttaði mig á þessu en það var mjög heppilegt óhapp því nú er ég búin að finna út hvað ég þarf að gera til að verða ósiðlega rík (á íslenskan mælikvarða).

Ef ég neita að tala íslensku næst þegar við hittumst, þá er ég líklega að endurforsníða harða diskinn í hausnum á mér. Ég er ansi hrædd um að quick format virki ekki.

 

Óttaregistur

Ég var hrædd við Grýlu. Trúði alls ekki foreldrum mínum sem staðhæfðu að hún væri ekki til. Um 6 ára aldur hætti ég að hafa áhyggjur af Grýlu en þá varð ég hrædd við höggorma. Um það leyti sem ég komst yfir mestu höggormafóbíuna varð ég hrædd við barnaverndarnefnd og verðbólguna og um það leyti sem verðbólgan hjaðnaði varð ég hrædd við alkóhólisma og er það reyndar enn.

Um tvítugt varð ég sjúklega hrædd við rottur. Þegar það lagaðist, 5 árum síðar, upplifði ég fjögurra ára fóbíulaust tímabil í fyrsta sinn á ævinni. Að lokum tókst mér þó að koma mér upp ástarsorgarkvíða á svo alvarlegu stigi að ég lagðist hvað eftir annað í ástarsorg á meðan vinurinn var ennþá að smokra sér í grænu hosurnar. Ég er komin yfir það, held ég, en nú er ég að hamanst við að koma mér upp brjálæðislegri hræðslu við kreppuna.

Ég hef aldrei orðið fyrir neinum óþægindum af völdum Grýlu, barnaverndarnefndar, höggorms eða rottu. Alkóhólista er einfalt að losa sig við. Ástarsorg er sjálfvalin eymd sem ég ræð alveg við í dag þótt ég hafi farið illa út úr henni á sínum tíma. Verðbólgan hefur ekki komið mér á vonarvöl og ég hef ástæðu til að trúa því að ég muni lifa kreppuna af líka. Samt hef ég legið andvaka af hræðslu við þessi fyrirbæri. Ég hef hinsvegar aldrei verið hrædd við lögguna, ekki einu sinni þegar ég var handtekin. Þótt það sé miklu rökréttara en allt hitt til samans.

Af þessu má ráða að ótti er frekar heimskuleg tilfinning. Allavega ekki rökrétt.

Ráð gegn ruslpósti

Ég kann ráð gegn ruslpósti. Almenningur sameinist um að safna öllum ruslpósti sem berst inn á heimilin í einn mánuð og sturta honum fyrir framan dyrnar hjá því fyrirtæki sem hefur sent mest af rusli. Næsta mánuð er svo annað fyrirtæki valið. Halda áfram að lesa

Línur

Flassbakk frá 1970.

Jóa situr bak við sjónvarpsskápinn í ömmuhúsi. Eða var það sófinn? Hún er er í kjól og sokkabuxum með gatamynstri af því að það er sunnudagur og svo er hún með nokkur pappírsblöð, vaxliti og skæri og dundar sér við að lita og klippa. Hún er svo stór að hún má alveg hafa skærin. Með því skilyrði að hún klippi ekki fötin sín auðvitað.

Halda áfram að lesa