Borgarahreyfingin er fyrirlitlegt flokkskerfisskrípi og máttlaust í þokkabót

mbl.is Borgarahreyfingin býður fram
Borgarahreyfingin er ekki nýtt stjórnmálaafl. Borgarahreyfingin er gamalt, þreytt, ónýtt stjórnmálaafl, semsagt hefðbundinn flokkur. Hún er þó sýnu fyrirlitlegri en aðrir flokkar að því leyti að hún hafði ekki einu sinni döngun til að móta sína eigin stefnu.

Borgarahreyfingin varð til á þann hátt, að nokkrar hreyfingar voru búnar að funda, tuða og þrátta, án þess að komast neitt áfram í margar vikur. Lýðveldisbyltingin hafði mótað ágæta stefnu sem hefur lýðræði að leiðarljósi en hugmyndin með Lýðveldisbyltingunni var sú að komast á þing, ná fram markmiðum um stjórnkerfisbreytingar og leggja svo hreyfinguna niður um leið og því væri lokið, til að tryggja að hún yrði ekki að venjulegum flokki.

Fljótt kom í ljós að flestir vildu ekki leggja hreyfinguna niður. Þeir vildu í raun viðhalda flokkakerfinu af því að þeir vildu sjálfir komast á þing og fá völd. Þeir gengu þessvegna úr hreyfingunni og fóru að vinna með fólki sem vill viðhalda flokkakerfinu með öllu sínu valdabrölti og spillingu.

Þegar allar þessar grasrótarhreyfingar sáu fram á að þær hefðu ekki manndóm til að ljúka sinni málefnavinnu í tæka tíð fyrir kosningar, varð lendingin sú að taka stefnu Lýðveldisbyltingarinnar upp nánast óbreytta. Það eina sem breytist er að nú er enn einn, viðbjóðslegur, valdasjúkur stjórnmálaflokkur í boði, en hann hefur ekki einu sinni drullast til að vinna málefnavinnuna sína sjálfur, heldur fengið hana á silfurfati og virkjað í þágu flokkakerfisins, frá fólki sem ætlaði einmitt að rísa gegn flokkakerfinu.

Þetta hlýtur að vera einmitt rétta fólkið til að koma á lýðræði í landinu.

One thought on “Borgarahreyfingin er fyrirlitlegt flokkskerfisskrípi og máttlaust í þokkabót

 1. ——————————-

  Heil og sæl. Ég hef fylgst með umræðunni á póstlistum þessarar „grasrótar“ sem að lokum tókst að hnoða sér saman um myndun Borgarahreyfingarinnar.

  Ég verð að segja að ég hef borið kennsl á margt gott fólk á þessum póstlista, og fylgst með umræðunni snúast smám saman upp í framapot einstaklinganna.

  Mér virðist að þeir sem hafa verið þarna í stefnumörkun án væntinga um persónulega umbun hafa smám saman tínt tölunni og horfið frá umræðunni.

  Eftir viðast standa stjórnsömustu einstaklingarnir, þeir sem eru meira en tíl í að að taka sér það hlutverk að hafa vit fyrir okkur hinum. Guðshlutverkið knýr á.

  Ég er þér sammála í grunntóninn Eva Hauksdóttir, þótt ég taki ekki eins sterkt til orða.

  Þessi niðurstaða þarf ekki að koma á óvart ef litið er til þess að eðli hins ómeðvitaða og stjórnlausa hugar manneskjunnar er ótti. Egóið óttast stöðugt að verða undir í baráttunni.

  Kær kveðja,

  Greppur Torfason, 24.2.2009 kl. 10:34

  —   —   —

  Stefnan er ennþá að leggja niður hreyfinguna þegar okkar málum hefur verið komið í gegn

  Heiða B. Heiðars, 24.2.2009 kl. 12:05

  —   —   —

  Ég virði það við þig Eva að þú ert alfarið á móti stjórnmálaflokkum. Sama má segja um sumt af því fólki sem þú réttilega nefnir og segir hafa fundað tuðað og þráttað í margar vikur án þess að það hafi skilað miklu. Umræðan snerist nefnilega oftar en ekki um beint lýðræði og þeir sem töluðu fyrir beinu lýðræði voru oft mjög harðir á sínu.

  Að borgarahreyfingin sé „fyrirlitlegt flokkskerfisskrípi og máttlaust í þokkabót“ verður bara að koma í ljós. Ég vona hins vegar að þú eyðir púðrinu frekar á aðra flokka. Innan þessarar nýju hreyfingar eru a.m.k. margir sem stóðu vaktina með þér og mótmæltu.

  Sigurður Hrellir, 24.2.2009 kl. 12:09

  —   —   —

  Guðjón : Ég hefði stutt þetta framboð heilshugar ef stefnuskrá þess hefði gefið skýrt loforð um að það yrði leyst upp að lokinni skarpri og gagngerri umbótavinnu á stjórn- og kosningakerfi okkar með aukið lýðræði og dreifingu valds sem aðalmarkmið.

  Ég efast ekki um að þeim einstaklingum sem standa að baki þessarar hreyfingar stendur gott eitt til,  enda þekki ég til margra þeirra. Það gengur öllum alltaf gott eitt til. Fljótlega verður útblásið egóið ofaná ef endinn er ekki skýr í upphafi : „verið sanngjörn, gerið eins og ég vil“. Egóið óttast ávallt eigin dauða, og því má ekki skilgreina endalok þess.

  Að fylgjast með stigvaxandi mögnun egós viðkomandi á póstlistum grasrótarinnar undanfarnar vikur einungis aukið mér vonleysi og vantrú á mannlegt eðli.

  Það er ekkert til sem heitir að vera „hæfilega heiðarlegur“ minn kæri. Annað hvort er heiðarleikinn til staðar og greyptur í vitundina eða ekki. Óheiðarleiki þrífst á sjálfum sér og getur aðeins vaxið. Ef „hæfilegur heiðarleiki“ væri valkostur, ætti tungan orð yfir slíkt, „smáheiðarleiki“, „milliheiðarleiki“. Slík orð eru ekki til, að eins „óheiðarleiki“ og „heiðarleiki“.

  Það er hins vegar hægt að vera heiðalegur á sumum sviðum og óheiðarlegur á öðrum. Mér er mikil forvitni á að vita hvar þú leggur til að frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar séu heiðarlegir, og hvar óheiðarlegir?

  Greppur Torfason, 24.2.2009 kl. 12:12

  —   —   —

   Annað hvort býður fólk fram til Alþingis sem flokkur/hreyfing/félag eða gerir blóðuga byltingu. Ég veit ekki hvort Evu hugnast betur en hún virðist alls ekki hrifin af þeirri leið sem Borgarahreyfingin hefur valið.

  Reyndar held ég að töluverðs misskilnings gæti hjá henni því að stefnumál Lýðveldisbyltingarinnar eru samin af sumu því fólki sem nú vill bjóða fram. Aðrir í Lýðveldisbyltingunni ákváðu að einbeita sér að stjórnlagaþingi eða beinu lýðræði og er ekkert nema gott um það að segja. Það er því alls ekki svo að stefnumálunum hafi verið stolið, enda mega öll stjórnmálasamtök taka þau upp hjá sér og virðast raunar að einhverju leyti vera að gera það.

  Annar hluti stefnumála Borgarahreyfingarinnar kemur svo frá fólki í Samstöðu sem einnig er hluti af framboðinu. Sú stefnumál snúast frekar að leiðum til bjargar heimilum og fyrirtækjum, rannsókn fjármálahrunsins og úrræðum í efnahagsmálum.

  Það er því skrýtin fullyrðing hjá Evu sem segir að fólkið geti ekki „drullast til að vinna málefnavinnuna sína sjálfur, heldur fengið hana á silfurfati“. Ég veit ekki betur en að flest okkar hafi verið mjög upptekin í þessari málefnavinnu síðustu 6 vikurnar. Hvar var Eva annars sjálf í öllu því ferli?

  Sigurður Hrellir, 24.2.2009 kl. 13:46

  —   —   —

  Svar: Að láta flengja sig á Lækjartorgi.Sigurður Hrellir, 24.2.2009 kl. 13:48

  —   —   —

   Ég hef já, verið að einbeita sér að aðgerðum en ekki flokkspólitík. Er eitthvað að því?

  Ég hef ekki gagnrýnt fólk fyrir starf þess í þágu stjórnmálaflokka. Ég hinsvegar fyrirlít hvern þann sem stendur í pólitískri vinnu á fölskum forsendum. Borgarahreyfingin mun ekkert leggja sjála sig niður, vegna þess einfaldlega að þeir sem vilja hafa völd munu ekki stuðla að því að leggja flokkakerfið niður á meðan engin tímamörk eru. Auk þess mun endalaust skapast þörf fyrir að móta stefnu í fleiri málum.

  Að búa til hefðbundinn stjórnmálaflokk er ekkert annað en svik við grasrótarstarf í landinu.

  Eva Hauksdóttir, 24.2.2009 kl. 14:16

  —   —   —

   Líklega átt þú við þau sem hafa bæði mótmælt við alþingishúsið, samið stefnumál fyrir Lýðveldisbyltinguna og eru nú búin að stofna til framboðs. Er einhver stjórnmálaflokkur sem þú fyrirlítur ekki?

  Ég ætla ekki að hvetja þig til að gefa kost á þér til framboðs enda yrðir þú móðguð. Þú ert annars mjög vel máli farin og klár.

  Sigurður Hrellir, 24.2.2009 kl. 15:27

  —   —   —

   Kæru félagar hvernig væri að leyfa þessu blessaða framboði tækifæri á að koma með sína stefnu og markmið áður en það verður hakkað í spað. Ég veit ekki betur en að það hafi verið tekin ákvörðun um að leggja þetta framboð niður þegar eftirfarandi helstu atriðum hefur verið náð í gegn:

  Gripið verði til neyðarráðstafana í þágu heimila og fyrirtækja.

  Landsmenn semji sína eigin stjórnarskrá.

  Trúverðug rannsókn undir stjórn og á ábyrgð óháðra erlendra sérfræðinga á íslenska efnahagshruninu verði hrundið af stað og fari fram fyrir opnum tjöldum.

  Eignir auðmanna frystar á meðan rannsókn stendur.

  Lögfest verði fagleg, gegnsæ og réttlát stjórnsýsla.

  Lýðræðisumbætur STRAX

  Stjórnlagaþing í haust
  Persónukjör
  Tryggt verði að ný framboð fái stuðning til jafns við starfandi stjórnmálaflokka
  Öll framboð fái sama tíma í fjölmiðlum og engar auglýsingar í ljósvakamiðlum
  Það hefði nú alveg verið hægt að leggja til án þessa offors að við myndum tryggja að framboðið myndi eyða sér þegar þessu er komið í framkvæmd – ekki hef ég neinn áhuga á að vera einhver útungunarvél fyrir fólk sem hyggur á framtíð inn á þingi.

  Stjórnin var valin á sunnudagskvöld – við höfum enn ekki náð að hittast en munum eiga fund í kvöld og ég á ekki von á öðru en að það verði fjallað um hvernig er best að haga því að leggja þetta niður – veit ekki hvort að tímarammi sé heppilegt einfaldlega vegna þess að það væri kjánalegt að fara inn á þing og fara svo í miðju ferli vegna þess að 3 mánuðir eru liðnir – þú hefur væntanlega séð hvernig flokkarnir reyna að hindra eðlileg verkferli inní þingsölum og setja tímaramma úr skorðum.

  Ég held að við ættum bara að gefa gæfu til að vinna saman og við sem erum búin að leggja blóð svita og tár í að koma Samstöðu saman sem bandalagi grasrótarhópa höfum alltaf reynt að fá fólk þarna saman frá öllum öngum grasrótarinnar og það er bara ekki auðvelt. Ég hef verið talsmaður þess að við sem höfum mótmælt þessu ástandi og undirrótum þess köstum ekki rýtingum í bakið á hvort öðru – mér finnst þú Eva mín vera að kasta hnífum í fólk án þess þó að hafa kynnt mér málið nógu vel og ert að gera nákvæmlega það sama og þeir sem köstuðu hnífum í Saving Iceland á sínum tíma.

  Mér finnst þetta ómakleg árás og legg til að fólk reyni að vinna saman að því að því að gera nauðsynlegar umbætur á stjórnarskrá svo hægt sé að hafa virk lýðræði hér á landi. Það sem aftur á móti heldur mér andvaka fremur öðru er IMF og ótti við að þjóðin kjósi yfir sig XD og XB enn einu sinni.

  Mér finnst ekkert mikilvægara nú á þessari ögurstundu þjóðarinnar að þeir sem vilja lýðræðisumbætur eða annað form á samfélagi skilji að við náum þessum ekki fram með einu stökki heldur þurfum við að beita öllum tiltækum ráðum til þess – eitt af ráðunum er framboð – annað er mótmæli – annað eru upplýsingar og andóf.

  Birgitta Jónsdóttir, 24.2.2009 kl. 15:44

  —   —   —

   Heil og sæl kæra Birgitta.

  Það þarf að koma skýrt fram í stefnuskrá að henni megi alls ekki breyta, að framboðið verði leyst upp sem slíkt þegar þegar sýnt þykir að stefnumarkmiðum sé náð á ásættanlegan hátt.

  Að öðrum kosti missir framboðið trúverðugleika sinn strax við fæðingu, og nær aldrei fluginu.

  Það er vissulega rétt að breytingarnar verða ekki gerðar í einu stökki, það er mikilvægt að sameinað framboð grasrótarhreyfinga komist á þing helst með skýrt umboð kjósenda til gagngerra breytinga. Að breytingum loknum – kosningar undir nýrri kosningalöggjöf og lýræðisramma dreifðara valds.

  Ég viðurkenni fúslega að það er minn eigin ótti sem knýr mig til gagnrýni í viðleitni og von til þess að verða að gagni. Það er einfaldlega of mikið í húfi til þess að sitja fullkomlega hjá. Af bakgrunni okkar beggja þekkjum við hve aðuveldlega maðurinn sýrist af sérplægni – það er þekking mín á þessu eðli sem vekur ótta minn og stýrir viðbrögðum mínum.

  Með vinsemd og virðingu,

  Greppur Torfason, 24.2.2009 kl. 16:30

  —   —   —

   Nei Birgitta, ég er ekki að gera það sama og þeir sem níddu Saving Iceland. Það er greinilegt að flestir átta sig alls ekki á því að ég er ekkert að setja út á einn eða neinn fyrir að stofna stjórnmálaflokk, heldur er ég fokvond yfir því að fólk sem ég hélt að væri heiðarlegt, þykist vera að vinna gegn flokkakerfinu, með því að stofna stjórnmálaflokk.

  Þessi stefnumál eru álíka ljós og áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um ‘aðstoð’ við Ísland. Allir flokkar ætla að gera aðgerðir í þágu heimilanna að aðalatriði. Allir ætla að hafa allt trúverðugt og uppi á borðinu og standa vel að rannsókn. Það er einfaldlega ólöglegt að frysta eignir nema líklegt sé að rannsókn leiði til sakfellingar svo eg VG ná því ekki fram, skiptir engu máli hvað þið eruð að brölta. Ef þið náið fram stjórnlagaþingi er það gott mál en það þarf engan stjórnmálaflokk til þess. Það er einfaldlega hægt að gefa stjórnvöldum fingurinn og halda stjórnlagaþing hvort sem þeim líkar betur eða verr. Reyndar tel ég að það væri betra. Það eina sem gerir þennan flokk sérstakan er þessi yfirlýsing um að leggja sjálfan sig niður og ef væri raunverulegur áhugi fyrir því hefði það bara verið gert í nafni Lýðveldisbyltingarinnar og með ákveðnum tímaramma.

  Nánast allt fylgi þessarar hreyfingar mun koma frá fólki sem annars hefði kosið VG. Það er því nánast hægt að óska ykkur til hamingju með það fyrirfram að koma Sjálfstæðisflokknum til valda aftur. Það er samt ekki það sem mér líkar verst. Það sem mér líkar verst er tilhugsunin um það að grasrótin sé jafn gegnsósa af valdabrölti og spillingu og allt annað í þessu samfélagi.

  Eva Hauksdóttir, 24.2.2009 kl. 16:40

  —   —   —

    Kristinn Örn ég mun leggja til að þetta verði algerlega tryggt – við erum að fara í gegnum þessu aðalatriði – það voru sameinaðar nokkrar hreyfingar í þessu framboði sem er alls ekki í mínum huga flokkur og mun aldrei starfa sem flokkur eins og Eva heldur fram.

  Ég er greinilega óheiðarleg að mati Evu og veit ekki hvernig hún dregur þá ályktun en það er bara hennar vandamál. Ætla ekki að taka það inn á mig. Veit ekki betur en að henni og fleirum hafi verið boðið að taka þátt í að stofna Samstöðu – bandlag grasrótarhópa en hún er róttæk til að geta unnið með öðrum en þeir sem eru henni sammála samkvæmt því sem hún heldur fram.

  Þessi stefnumál sér í lagi neyðaraðgerðir í þágu heimila í landinu eru reyndar afar vel unnið og róttækt en ég sé ekki ástæðu til að birta það hér í kommentakerfinu, skellum því inn á nýjan vef þegar hann kemur upp á næstu dögum.

  Það er búið að vinna að þessum málum í marga mánuði með það að markmiði að koma með raunhæfar lausnir. Mér finnst það bara hafa tekist mjög vel. Okkur finnst það frábært framtak að hafa stjórnlagaþing til hliðar við þingið – leggjum til að það verði tekið slembiúrtak úr þjóðskrá í stað þess að þingið velji inn á það.

  Mér finnst sorglegt að fólk leggi sig fremur fram að rífa niður í stað þess að finna fleti á að vinna saman ef að það hefur áhuga á raunverulegum breytingum.

  Hvaða lausnir ert þú til dæmis með á ástandinu hér Eva?

  Birgitta Jónsdóttir, 24.2.2009 kl. 16:51

  —   —   —

    Það er engin lausn möguleg í þeim skilningi að forða okkur frá afleiðingunum af þessu  viðbjóðslega valdakerfi sem við búum við.

  Það sem ég vildi sjá er að við horfumst í augu við fátækt okkar og tökumst á við hana í stað þess að taka lán til að halda sukkinu áfram og velta neyðinni yfir á börnin okkar. Ég vil skila þessu láni frá AGS. Ég vil neita að borga Icesave skaðann (á þeirri forsendu að við getum það einfaldlega ekki). Ef það verður til þess að aðrar Evrópuþjóðir snúi við okkur baki, þá vil ég bara segja þeim að fara fjandans til og bjarga okkur án þeirra.

  Við getum framleitt nógan mat. Við eigum nóg húsnæði, hita og rafmagn. Við erum upp á aðra komin með olíu, lyf og læknistæki. Við hljótum að geta samið við araba ef Evrópubúar ætla að gefa skít í okkur.

  Þetta myndi þýða að við þyftum að takast á við mikla fátækt og erfiðleika í mörg ár og þessvegna veit ég að þessar hugmyndir fá ekki hljómgrunn. Flestir vilja nefnilega ekki horfast í augu við hvernig komið er fyrir okkur. Ég get vissulega unnið með fólki sem er ekki sammála mér um alla hluti og geri það svo sannarlega en það er alveg á hreinu að ég myndi aldrei fallast á ‘lausn’ sem miðar að því að viðhalda sjálfsblekkingunni.

  Raunveruleg breyting getur aldrei falist í því að viðhalda kerfinu.

  Eva Hauksdóttir, 24.2.2009 kl. 17:10

  —   —   —

    Ekki ætla ég að nota stóryrði um framtíðarsýn Evu þó ég sé henni afar ósammála. Hún vill augljóslega að Ísland taki ekki ábyrgð á ástandinu út á við – einungis inn á við. Ef hér verður á næstu árum og áratugum e-s konar sjálfsþurftarbúskaparsamfélag í mikilli einangrun frá öðrum þjóðum líst mér illa á það. Afleiðingin mun verða sú að ungt fólk sem hefur menntað sig flytur erlendis og eftir verður samfélag með fjölmennum hópum aldraðra, sjúkra og ósjálfbjarga fólks. Hinir sem fulla starfsorku hafa munu þurfa að hafa sig alla við að halda uppi nægilegri framleiðslu og koma í veg fyrir skort.

  Nær væri að beita öllum ráðum til að komast yfir allt það fé sem hefur verið skotið undan og tekið ránshendi af svokölluðum athafnamönnum og útrásarvíkingum.

  Sigurður Hrellir, 24.2.2009 kl. 17:31

  —   —   —

    Sigurður, þú heldur þó ekki að þetta lán frá Alþjóða óþokkasjóðnum haldi fólki í landinu?

  Guðjón. Samhjálparsamfélag sem er að nokkru leyti sjálfbært og stefnir á að gera miklu betur, er þegar starfandi á höfuðborgarsvæðinu (já við þurfum að fara út fyrir bæinn reglulega svo við erum því miður háð bensíni ennþá). Okkur vantar t.d. pípara og lækni og getum hugsað okkur samstarf við ýmsa aðra hæfileikamenn svo ef þú hefur áhuga er alveg hugsanlegt að þú fáir að vera með.

  Eva Hauksdóttir, 24.2.2009 kl. 20:37

  —   —   —

    Því miður þá mun þetta framboð einungis styrkja Sjálfstæðisflokkinn – og það finnst mér drottinssvik við mótmælendur eins og mig sem erum núna allt í einu flokkaðir sem einhver „grasrót“ í þessu framboð. Ég er engin helvítis grasrót fyrir þetta framboð sem ætlar sér að tryggja Sjálfstæðisflokknum völd eftir kosningar – enda falla dauð atvæði vinstri sinnaðar með þessu framboði en ekki eitt atkvæði kemur frá hægri vængnum í svona flokk, því þar eru allir steyptir í sama mót.Þór Jóhannesson, 24.2.2009 kl. 21:57

  —   —   —

    Þór og Eva, beinið vopnunum í rétta átt! Sjálfur stóð ég ekki í kulda og trekki við Alþingishúsið dag eftir dag til þess að koma Steingrími J. uppí með Samfylkingunni. Svo samþykkir hann hvalveiðar án þess að spyrja félaga sína álits á því! Því miður hefur ykkar verið sárt saknað að undanförnu – mótmælunum er ekki lokið! Hér þarf að breyta heilu þjóðfélagi, losna við spillta stjórnsýslu og bullið á Alþingi, færa lýðræðið til þjóðarinnar og fá nýja stjórnarskrá. Hvað hefur eiginlega orðið af ykkur? Eru hugsjónir ykkar á útsölu?Sigurður Hrellir, 25.2.2009 kl. 02:28

  —   —   —

  Og nú lítur út fyrir að farið verði í kosningar enn eina ferðina án þess að neitt hafi hnikast í átt að réttlátari kosningareglum. Enn er 5% þröskuldur á nýjum framboðum og verður líka í þarnæstu kosningum (út af stjórnarskrá). Enn er mjög mikið misvægi atkvæða eftir því hvaða kjördæmi fólk tilheyrir. Enn er ekkert persónukjör og flokkarnir láta eins og kjósendum sínum komi það ekkert við. Enn eru gömlu flokkarnir með tugmilljóna forskot á ný framboð sem fá ekkert til að heyja kosningabaráttu sína.

  Allt þetta út af því að VG heimtaði kosningar í byrjun apríl og fór í þessa misheppnuðu stjórn með blessun Framsóknar. Þór, varst þú ekki að biðja um utanþingsstjórn í ótal bloggfærslum? Af hverju sættir þú þig við þetta leikrit á Alþingi núna? Gæti ekki hugsast að einmitt þetta færði Sjálfstæðisflokknum atkvæði á silfurfati?

  Sigurður Hrellir, 25.2.2009 kl. 03:19

  —   —   —

   Sigurður. Ég held satt að segja að fáir Íslendingar hafi varið meiri tíma og orku til að standa í mótmælaaðgerðum en ég. Ég hef hvað eftir annað lokað fyrirtækinu vegna mótmæla, ég hef mætt útkeyrð af þreytu, ég hef mætt fárveik.Svo gagnrýni þinni á mig fyrir slælega þátttöku máttu troða upp í …Eva Hauksdóttir, 25.2.2009 kl. 07:55

  —   —   —

    Guðjón: Nei, við erum ekki komin svo langt að koma á skattakerfi ennþá. Þegar ég útvega þér notað reiðhjól og þú passar börn fyrir bróður minn á meðan hann gerir við tölvu vinar þíns, sem svo aftur útvegar mér kartöflur, þá er nú varla grundvöllur til að standa í mikilli skriffinnsku í kringum það.

  Að sjálfsögðu notum við þá þjónustu sem er greidd með skattpeningunum okkar. Nógu er víst rænt af manni samt. Ekki hægt að kaupa nauðsynlegasta mat án þess að ríkið seilist ofan í vasa manns í leiðinni og þá ekkert spurt hvort maður hafi yfirhöfuð tekjur. Það er ánægjulegra að gefa og þiggja en það er því miður ekki hægt að kúpla sig út úr hagkerfinu á einni nóttu. Við höfum þó fullan hug á að mjaka okkur lengra í þá átt svo ef þú ert til í að taka þátt í því t.d. að yfirtaka Alþingishúsið og koma þar á fót þjónustumiðstöð (ég get ekki séð að það gagnist mér eða þér neitt að halda 63 manneskjum á launum við að pexa um það heilu dagana hver átti hvaða hugmynd eða hvert þeirra sé mestur kúkalabbi, svo það er um að gera að nýta þetta hús til einhvers þarfara)  þá endilega hafðu samband.

  Eva Hauksdóttir, 25.2.2009 kl. 08:11

  —   —   —

    Þetta yrði gott hvað með öðru.Eva Hauksdóttir, 25.2.2009 kl. 19:40

Lokað er á athugasemdir.