Línur

Flassbakk frá 1970.

Jóa situr bak við sjónvarpsskápinn í ömmuhúsi. Eða var það sófinn? Hún er er í kjól og sokkabuxum með gatamynstri af því að það er sunnudagur og svo er hún með nokkur pappírsblöð, vaxliti og skæri og dundar sér við að lita og klippa. Hún er svo stór að hún má alveg hafa skærin. Með því skilyrði að hún klippi ekki fötin sín auðvitað.

Amma talar í símann. Hún er að segja einhverri konu frá litla barninu. Jóa er búin að fara á spítalann og sjá litla barnið. Það spriklar mikið og hefur næstum ekkert hár en samt segja allir að stelpan hafi mjög mikið, dökkt hár. Það er asnalegt að kalla svona lítið barn stelpu.

Jóa er búin að klippa fullt af blöðum en þau er ekki fín. Í leikskólanum er hægt að fá pappír með gatamynstri til að klippa eftir. Þá getur maður klippt næstum alveg rétt. Hún horfir á fótleggi sína. Skærin eru ekki með beittum oddi en það er samt hægt að stinga honum inn um götin. Jóa stingur öðru skærablaðinu í gat –og klippir.

Amma hefur kannski ekki augu í hnakkanum en hún virðist samt finna ýmislegt á sér.
-Jóhanna, þú passar skærin er það ekki? kallar hún.
-Jújú, segir Jóa.
-Þú mátt ekki klippa fötin þín, segir amma.
-Neinei, segir Jóa.
Hún er heldur ekkert að klippa fötin sín. Bara sokkabuxurnar.

Amma virðist hissa fremur en reið. Horfir ráðvillt á hana og segir;
-Jóhanna Helga. Hversvegna í ósköpunum gerirðu þetta?
-Ég varð að gera það til að klippa fínt,
útskýrir Jóa.
-Neeei! Þetta er ekki fínt. Sjáðu, það er komið stórt gat á sokkabuxurnar. Nú verður þú að fara í buxur á meðan ég geri við þetta og ég ætla ekki að leyfa þér að hafa skærin áfram, segir amma, líklega sjálfri sér grömust fyrir að vera svo vitlaus að treysta barni á þriðja ári fyrir skærum þó svo að reynslan sýni hve óskynsamlegt það er. Svo fer hún aftur í símann og mæðist:
-Þetta er alveg hreint með ólíkindum. Það er ekki eins og hún sé einhver skemmdarvargur þetta ljós! Hún svona hlýðin og góð, fer ekkert fyrir henni og gætir þess svo vel hvar hún leggur skærin frá sér. En það bregst ekki, ef hún fær að hafa skæri án eftirlits, þá klippir hún sokkabuxurnar sínar í sundur. Bara sokkabuxurnar, aldrei neitt annað!

Á meðan liggur Jóa á maganum á gólfinu og dregur vaxlit eftir rifu á milli gólffjala. Hún veit að það má ekki teikna á gólfið en hún er heldur ekkert að því. Hún er bara að nýta þetta ágæta hjálpartæki til að teikna verulega fína línu.

 

One thought on “Línur

  1. Tjásur

    🙂
    Þetta er saga sem ég fæ aldrei leið á. Samt svo allt öðruvísi að lesa hana frá „Jóu“ sjálfri.
    Elska þig kæra systir.

    Posted by: Hulla | 10.01.2008 | 10:22:48

Lokað er á athugasemdir.