Álög

Enskumælandi fólk býr til peninga. Íslenskan nær hinsvegar ekki yfir þá hugmynd. Íslendingar þéna peninga með þjónustu, afla fjár með líkamsafli sínu, eða græða fé á sama hátt og skóga, með því að sá og uppskera. Hugmyndin um uppskeru án útsæðis, erfiðis og þjónkunar við aðra er einfaldlega ekki til í málinu. Þegar Íslendingurinn er kominn með þóknunina, aflann eða gróðann í hendurnar, tekur hann til við að eyða honum. Jafnvel að sóa honum. Íslendingar verja ekki fjármunum til daglegra þarfa eða nota þá, heldur eyða þeim.

Orð síast inn í undirvitundina, móta hugmyndir okkar um veruleikann og gera okkur að því sem við erum. Ég hef þénað, grætt og aflað, oftast minna en mig langar til að eyða. Sennilega er hrifning mín á orðsifjafræði stóra ástæðan fyrir því hve sjaldan mér hefur tekist að búa til peninga úr engu og verja þeim til að búa til ennþá fleiri peninga.

Allt er í heiminum táknrænt. Það þurfti reyndar nokkuð leiðinlegt óhapp til að ég áttaði mig á þessu en það var mjög heppilegt óhapp því nú er ég búin að finna út hvað ég þarf að gera til að verða ósiðlega rík (á íslenskan mælikvarða).

Ef ég neita að tala íslensku næst þegar við hittumst, þá er ég líklega að endurforsníða harða diskinn í hausnum á mér. Ég er ansi hrædd um að quick format virki ekki.

 

One thought on “Álög

  1. ——————

    Athyglisvert að enskumælandi fólk býr til ást, en íslendingar elskast…

    Posted by: HT | 25.02.2008 | 21:00:55

    —   —   —

    Fjár síns
    er fengið hefir
    skyli-t maður þörf þola.
    Oft sparir leiðum
    það er hefir ljúfum hugað.
    Margt gengur verr en varir.

    Posted by: Guðjón Viðar | 26.02.2008 | 9:39:44

Lokað er á athugasemdir.