Norn.is

Eva Hauksdóttir

Norn.is

Tilbrigði við barnagælu

Litli gimbill, landið mitt,
liðið er bráðum sumrið þitt
nú mega sandar svíða
lappir og haus á lambinu mínu fríða.

Gimbilinn skal nú skera og flá,
skinnið hans saltar hélan grá.
Leitar sér fleiri lamba,
Landsvirkjun inn í Ver með kuta og kamba.

Litli gimbill, landið mitt,
látum virkja blóðið þitt
svo Evrópa megi úr áli,
framleiða fleiri vopn handa Pétri og Páli.

Nú er kátt í hverjum hól
kjötið má reykja fyrir jól.
Una því ánægð börnin.
Arfurinn þeirra er gollurinn og görnin.

Litli gimbill, landið mitt,
þótt leggist rotta á hræið þitt
og éti með tryggðatröllum,
klingir kátt í sjálfstæðissauðabjöllum.

Hirðskáldið

Væri ég hirðskáld virt og dáð
vildi ég rómi digrum
hylla kóngsins heillaráð
og hampa hans fræknu sigrum.

Trúum þegnum traust og hald,
tryggir blessun mesta,
kóngsins æðsti vilji og vald
viska og framsýn besta.

Aldrei skugga á hann ber
eilíft nafn hans lifir
því skáldsins æðsta skylda er
hans skít að klóra yfir.

Og falli kóngsins frægðarsól
þá feikinn orðsins kraftur,
skáldsins kvæði og háfleygt hól
hefj’ann á stallinn aftur.

Væri ég hirðskáld harla gott
ég hetjukvæði syngi
um drengilegust Davíðs plott
og djörfung hans á þingi.

Vald og heiður víst ég tel
að vera í hirðskálds sporum.
Því dróttkvæðin mín duga vel
Davíð, kóngi vorum.

Stjörnurnar hennar Rebekku

Nú hylja skýin himins stjörnur sýnum
og helgrá fjöllin sveipa þokuslæður.
Á þorpið herjar hríðarbylur skæður
og hrekur lítinn fugl úr garði þínum.

Í mannsins heimi finnst þó fegurð síður,
þar fyrir völd og gróða berjast bræður
og fjandinn sjálfur flestum ríkjum ræður
er fátækt, stríð og spilling húsum ríður.

Þó áttu sjálfa veröldina að vini
því verðugt er að líta jörðu nær
þá fegurð sem við fætur þína grær,
í garðinum, frá götuljóssins skini
glitra allt um kring og undir skónum
þúsund stjörnur, þér til gleði, í snjónum.

Gímaldin gerði lag við þetta kvæði og gaf út 2012.

Ljóð handa Job

Og hvað hélstu eiginlega Job minn
að guðdómurinn væri?
ódæll unglingur
sem í kröfu sinni um óskilyrta ást
reynir stöðugt að ganga fram af þér?
Datt þér þá aldrei í hug að senda hann inn í herbergið sitt
og fá vinnufrið fyrir honum dálitla stund?

Eð hélstu kannski
að guðd´+omurinn vær
ofbeldishneigður maki
og hékkst utan í honum af því þú þorðir ekki annað,
þorðir ekki að vera einn?

Og nú, þegar þú fagnar betri tíð
hvort treðurðu þrúgur þrælsóttans
eða teygar vín þakklætisins?
Hvort gerir þú Job? Hvort?

Vissirðu þá ekki Job minn góður
að guðdómurinn leggur engar gildrur
fyrir börn sín
og þeir sem troða þrúgur hugrekkisins
á meðan hann bregður sér af bæ,
-án ótt við einsemd
-án vonar um hjálp
þeir einir hafa tök á því að bjóða guðdómnum á fyllirí
þegar hann loksins snýr heim.

Því guð tekur ekkert frá þér Job
og hann gefur þér aldrei vín
aðeins þrúgur,
en fáist hann til að skála við þig
verðurðu í sannleika ölvaður
af því eina víni sem er þess virði að troða þrúgurnar;
þakklæti Job.
Þakklæti.
Því jafnvel ástæðulaust þakklæti
er betra en allsnægtir án þess.

Og þessvegna Job
aðeins þess vegna treð ég þrúgurnar,
þrúgur áræðis,
þrúgur einlægni,
-án ótta við einsemd,
-án vonar um hjálp,
ef svo ólíklega skyldi fara
að dag nokkurn
eigi guðdómurinn leið hjá húsi mínu.

Leit

Það liggur enginn vegur að enda regnbogans
sagðir þú

og í þeirri sælu trú
að regnboginn væri
engin brú til betri heima,
aðeins ósnertanlegt sáttmálstákn almættisins
við dauðhreinsaðar sálir mannanna,
hættir þú leitinni
og sóttir um vinnu
við holræsakerfi borgarinnar.

En þú veist ekki
það sem ég veit.

Litir regnbogans búa
í daunillri olíubrák í höfninni.

Sírennsli

Ást mín á þér er löngu orðin
eins og sírennslið í klósettinu
aðeins rólegt mal,
hluti af tilverunni og
truflar mig ekki lengur.Á þó til að angra næturgesti
sem brölta bölvandi fram úr og sturta niður
í von um frið.

Án árangurs
og kveðja vansvefta að morgni.