Sálmur

Þótt ríki í heiminum harðræði og stríð
skal hjarta þitt friðhelgi njóta,
í kærleikans garði þú hvílist um hríð
og hversdagsins þjáningar standa til bóta.
Veröldin sýnir þér vorgrænan skóg
svo vitund þín unun þar finni
og góðvildin, blíðan og gleðinnar fró
gróa í hugarró þinni.

Í garðinum vaxa þau vináttublóm
sem von þína á hunangi næra
og aldreigi þurfa að óttast þann dóm
sem árstíðasviptingar jörðinni færa.
Þín blygðun er ástinni óþurftargrjót
sem uppræti heiðarlegt sinni,
svo breiði hún krónuna birtunni mót
og blómstri í einlægni þinni.

Með auðmýkt skal frjóvga þau fegurðarkorn
sem falla í jarðveg þíns hjarta.
Í dyggðinni vitrast þér vísdómur forn
og val þitt mun samhygð og örlæti skarta.
Þó læðist að vafi, um lostann er spurt
ég læt mér það nægja að sinni,
að nefna þá staðreynd að nautnanna jurt
nærist á ástríðu þinni.

Gímaldin gerði síðar lag við þennan texta.

Ljóð handa Job

Og hvað hélstu eiginlega Job minn
að guðdómurinn væri?
ódæll unglingur
sem í kröfu sinni um óskilyrta ást
reynir stöðugt að ganga fram af þér?
Datt þér þá aldrei í hug að senda hann inn í herbergið sitt
og fá vinnufrið fyrir honum dálitla stund?

Eð hélstu kannski
að guðd´+omurinn vær
ofbeldishneigður maki
og hékkst utan í honum af því þú þorðir ekki annað,
þorðir ekki að vera einn?

Og nú, þegar þú fagnar betri tíð
hvort treðurðu þrúgur þrælsóttans
eða teygar vín þakklætisins?
Hvort gerir þú Job? Hvort?

Vissirðu þá ekki Job minn góður
að guðdómurinn leggur engar gildrur
fyrir börn sín
og þeir sem troða þrúgur hugrekkisins
á meðan hann bregður sér af bæ,
-án ótt við einsemd
-án vonar um hjálp
þeir einir hafa tök á því að bjóða guðdómnum á fyllirí
þegar hann loksins snýr heim.

Því guð tekur ekkert frá þér Job
og hann gefur þér aldrei vín
aðeins þrúgur,
en fáist hann til að skála við þig
verðurðu í sannleika ölvaður
af því eina víni sem er þess virði að troða þrúgurnar;
þakklæti Job.
Þakklæti.
Því jafnvel ástæðulaust þakklæti
er betra en allsnægtir án þess.

Og þessvegna Job
aðeins þess vegna treð ég þrúgurnar,
þrúgur áræðis,
þrúgur einlægni,
-án ótta við einsemd,
-án vonar um hjálp,
ef svo ólíklega skyldi fara
að dag nokkurn
eigi guðdómurinn leið hjá húsi mínu.