Launkofinn

Ég gekk sem barn um grýttan fjallaveg
Í gjótu fann ég yfirgefinn kofa
Og þangað enn ég þunga byrði dreg
Í þagnarinnar faðmi til að sofa.

Því ég er eins og jarðarinnar grös
og jafnvel tímans mosabreiður héla
í launkofanum liggja brotin glös
sem lærði ég í barnæsku að fela

og enginn getur öðrum manni breytt
né annars gler úr launkofanum borið
þó held ég kannski að hönd þín gæti leitt
huldupiltinn þaðan, út í vorið.

 

Það eru til þrjú lög við þennan texta. Einn eftir Óttar Hrafn Óttarsson, annar eftir Björn Margeir Sigurjónsson og sá síðasti eftir Begga bróður minn.  Ekki veit ég til þess að nokkurt þeirra hafi verið flutt opinberlega. Lagið hans Begga er með millistefi og ég bætti eftirfarandi við til að falla að því.

#Fljótt
nótt,
hjúpar ofirhljótt
þá sem eiga sorgir eða ást í meinum.
Hlær
blær,
á meðan mosinn grær
yfir gjóturnar sem gistum við í leynum.#

Sálmur

Þótt ríki í heiminum harðræði og stríð
skal hjarta þitt friðhelgi njóta,
í kærleikans garði þú hvílist um hríð
og hversdagsins þjáningar standa til bóta.
Veröldin sýnir þér vorgrænan skóg
svo vitund þín unun þar finni
og góðvildin, blíðan og gleðinnar fró
gróa í hugarró þinni.

Í garðinum vaxa þau vináttublóm
sem von þína á hunangi næra
og aldreigi þurfa að óttast þann dóm
sem árstíðasviptingar jörðinni færa.
Þín blygðun er ástinni óþurftargrjót
sem uppræti heiðarlegt sinni,
svo breiði hún krónuna birtunni mót
og blómstri í einlægni þinni.

Með auðmýkt skal frjóvga þau fegurðarkorn
sem falla í jarðveg þíns hjarta.
Í dyggðinni vitrast þér vísdómur forn
og val þitt mun samhygð og örlæti skarta.
Þó læðist að vafi, um lostann er spurt
ég læt mér það nægja að sinni,
að nefna þá staðreynd að nautnanna jurt
nærist á ástríðu þinni.

Gímaldin gerði síðar lag við þennan texta.