Þessi texti var ortur við lag Leonards Cohen, Hallelujah.
Það gerist eitthvað gott hvern dag
svo gríptu færið, nú er lag
að setja markið hátt og hefjast handa.
Á hamingjunnar heillabraut
mun heppni falla þér í skaut
og hjálp þér hlotnast brátt í hverjum vanda.
Ef allt þér mistekst mundu þá,
af misförunum læra má
og firnamikill kraftur fylgt því getur.
Þín bíður dag hvern blessun ný
þótt búin sé sem flákaský
og er þú reynir aftur allt fer betur.
Svo gefstu ekki upp þótt gefi á
það getur ekkert stöðvað þá
sem keppa að nýrri dáð á hverjum degi.
Velgengninnar vegslóð er
vörðuð hindrunum en þér
mun auðnast ráð að ýta þeim úr vegi.
Sett í skúffu í febrúar 2002
Gímaldin samdi síðar lag við þennan texta.