Davíð tjáir sig um lekamálið

Það er ýmislegt sem gleymist hér. Í fyrsta lagi það að lög um meðferð persónuupplýsinga eru í fullu gildi hvort sem innanríkisráðherra telur sig hafa hag af því að þeim sé lekið eður ei og innanríkisráðuneytinu ber að fara að lögum eins og öðrum. Í öðru lagi það að ekkert hefur komið fram sem styður þær aðdróttanir sem eru viðraðar í skjalinu.

Það er samt fínt að Davíð skuli afhjúpa þá afstöðu sína að ráðherrar sjálfstæðisflokksins séu hafnir yfir lög.

https://www.facebook.com/eva.hauksdottir.norn.is/posts/10151956718652963

Berum kallinn út ef annað dugar ekki


Þessi maður
 er búinn að segja allt sem segja þarf um það hversvegna bankastjórar Seðlabankans eiga að fara.

Ég vil bæta því við að embættismaður sem segist hafa upplýsingar um það hversvegna hryðjuverkalögum var beitt gegn Landsbankanum, og gefur þar með í skyn að það mál sé eitthvað flóknara en vitað er, en neitar að upplýsa þjóðina um það, á ekki að vera deginum lengur við völd. Stærstu, og kannski öll, vandamál Íslendinga í dag stafa af því að almenningur fékk ekki upplýsingar sem hann átti siðferðilegan rétt á. Þessu leynimakki varðandi alla hluti verður að linna.

Og já, enn og aftur, er búið að upplýsa um alla skilmála IMF?

mbl.is Lýsir miklum vonbrigðum

Dauð og ómerk

hammerEf orð einhvers eru fyrir rétti dæmd „dauð og ómerk“ jafngildir það þá ekki því að maðurinn hafi verið dæmdur rógberi?

Og ef maður hefur verið dæmdur ómerkur orða sinna, sumsé rógberi eða einhver sem ekki er mark á takandi, er þá við hæfi að sá hinn sami gegni æðsta valdaembætti þjóðarinnar? Ef við hæfi að dæmdur afbrotamaður, jafnvel þótt dómurinn hafi ekki séð ástæðu til að refsa fyrir brotið, heldur einungis að tilkynna þjóðinni að ekki sé að marka allt sem maðurinn segi, setjist í stól dómsmálaráðherra?

Væri þá ekki eins við hæfi að gera gjaldþrota mann fjármálaráðherra? Skipa framhaldsskólafallista í stól menntamálaráðherra?

Hvers vegna þurfa íslenskir ráðamenn svona sjaldan að axla ábyrgð á eigin afglöpum?

Hvers konar heimóttir erum við eiginlega að láta svona mikla spillingu viðgangast?

Hirðskáldið

Væri ég hirðskáld virt og dáð
vildi ég rómi digrum
hylla kóngsins heillaráð
og hampa hans fræknu sigrum.

Trúum þegnum traust og hald,
tryggir blessun mesta,
kóngsins æðsti vilji og vald
viska og framsýn besta.

Aldrei skugga á hann ber
eilíft nafn hans lifir
því skáldsins æðsta skylda er
hans skít að klóra yfir.

Og falli kóngsins frægðarsól
þá feikinn orðsins kraftur,
skáldsins kvæði og háfleygt hól
hefj’ann á stallinn aftur.

Væri ég hirðskáld harla gott
ég hetjukvæði syngi
um drengilegust Davíðs plott
og djörfung hans á þingi.

Vald og heiður víst ég tel
að vera í hirðskálds sporum.
Því dróttkvæðin mín duga vel
Davíð, kóngi vorum.