Dauð og ómerk

hammerEf orð einhvers eru fyrir rétti dæmd „dauð og ómerk“ jafngildir það þá ekki því að maðurinn hafi verið dæmdur rógberi?

Og ef maður hefur verið dæmdur ómerkur orða sinna, sumsé rógberi eða einhver sem ekki er mark á takandi, er þá við hæfi að sá hinn sami gegni æðsta valdaembætti þjóðarinnar? Ef við hæfi að dæmdur afbrotamaður, jafnvel þótt dómurinn hafi ekki séð ástæðu til að refsa fyrir brotið, heldur einungis að tilkynna þjóðinni að ekki sé að marka allt sem maðurinn segi, setjist í stól dómsmálaráðherra?

Væri þá ekki eins við hæfi að gera gjaldþrota mann fjármálaráðherra? Skipa framhaldsskólafallista í stól menntamálaráðherra?

Hvers vegna þurfa íslenskir ráðamenn svona sjaldan að axla ábyrgð á eigin afglöpum?

Hvers konar heimóttir erum við eiginlega að láta svona mikla spillingu viðgangast?

One thought on “Dauð og ómerk

  1. ————————-

    Binni @ 18/06 18.48

    Ekki er hægt að beita dómstólunum til þess að þjóna lund sinni, Eva. Menn eru ekki dæmdir rógberar fyrir eitthvað sem þeir segja, ekki heldur asnar eða fávitar. Síðan eru menn ekki dæmdir að eilífu nema hjá dómstóli götunnar. Flestir taka út sinn dóm og öðlast frelsi.

    Orð manna er hægt að dæma dauð og ómerk á Íslandi, þótt það sé óneitanlega öfugsnúið. Venjulega eru ummæli sem dæmd eru dauð og ómerk ódauðleg! Þau lifa á vörum almennings um ókomna tíð. Miklu nær væri að dæma menn í háar fjársektir fyrir meiðyrði.

    Gleymdu svo ekki öllum „rógburðinum“ sem ekki kemur til kasta dómstóla, t.d. þegar Össur kallaði Baugsfeðga „hreinræktaða drullusokka“ sem ekki ættu „skilið virðingu samborgara sinna“, að hann myndi „aldrei gleyma þessu“ og nýta það sem eftir væri af ævi sinni til að „lýsa fyrir samferðamönnum [sínum] hvers konar menn þetta eru“.

    Eða hin ódauðlegu ummæli forseta Íslands um „skítlegt eðli“ forsætisráðherra. 😉 Allt lifir þetta góðu lífi.

    ————————-

    Eva @ 18/06 21.39

    Ég mæli ekki sérstaklega með því að munnsöfnuður Össurs Skarphéðinssonar verði tekinn upp sem pólitísk trúarjátning þjóðarinnar. Hitt er svo annað mál að ef orð einhvers hafa verið dæmd „dauð og ómerk“ þá liggur í orðanna hljóðan að ekkert sé að marka þau. Sá sem fer opinberlega með ærumeiðandi fleipur um annað fólk, kallast á góðri íslensku rógberi. Þannig að ég sé ekki betur en að forsætisráðherra landsins hafi verið dæmdur fyrir róg. Jafnvel þótt menn séu ekki dæmdir að eilífu, finnst mér eðlilegt að gera þá kröfu til ráðherra að þeir hafi hreina sakaskrá. Finnst þér það óeðlileg krafa Binni?

    ————————-

    Binni @ 19/06 02.13

    Ummæli Davíðs voru ekki talin brjóta í bága við hegningarlög og voru því ekki refsiverð. Dómurinn taldi að skýra bæri 234. grein hegningarlaga, sem fjallar um ærmeiðingar, þrengjandi á þá leið að í opinberri umræðu um málefni, sem varða almenning miklu, megi einnig hafa í frammi skoðanir sem kunni að móðga eða hneyksla samborgarana. Þar fýkur möguleikinn að setja Davíð af á þeirri forsendu að hann hafi ekki hreina sakaskrá.

    Ef þú lest dóminn gaumgæfilega sérðu að forsætisráðherra var ekki dæmdur rógberi. Þú ert sjálf að dæma hann þannig á forsendum dómsins.

    Ég er hinsvegar sammála þér um það að æðstu ráðamenn eigi að hafa hreint sakavottorð. En hver er skoðun þín á alþingismanninum sem tók út refsingu í fangelsi á síðasta löggjafarþingi? Hefði átt að setja hann af?

    ————————-

    Binni @ 19/06 02.25

    Ég ætlaði einnig að segja, að dómurinn taldi annmarka á ummælum Davíð Oddssonar ekki stórvægilega eða til þess fallna að valda stórfelldu tjóni á æru Jóns Ólafssonar. Dómurinn taldi einnig að með ómerkingunni hefði hlutur Jóns að nokkru verið réttur.

    Dómurinn er hér á PDF-formi.

    ————————-

    Gunný @ 19/06 09.56

    Ærmeiðingar ættu nú kannski að falla undir landbúnaðarráðuneytið:-) Sláturhúsin gætu komið illa út úr því….! (Bara smá djókur sko)

    ————————-

    Eva @ 20/06 18.50

    Já Binni, það hefði tvímælalaust átt að setja hann af. Mér finnst það algerlega óviðeigandi að menn sitji á þingi um leið og þeir taka út dóm.

    Nú er ég ekki lögfróð en áttu virkilega við að menn geti fengið á sig dóm fyrir lögbrot, án þess að lenda á sakaskrá?

    ————————-

    Binni @ 20/06 22.34

    Niðurstöður í opinberum málum á hendur einstaklingi eða lögaðila eru færðar í sakaskrá þegar máli er lokið með (a) dómi eða viðurlagaákvörðun vegna brots á alm. hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni, (b) dómi eða viðurlagaákvörðun vegna brots á öðrum lögum þegar ákveðin er fangelsisrefsing, ákvörðun refsingar er frestað eða ákveðin er réttinda- eða leyfissvipting eða, dæmd er sekt 50.000 kr. eða hærri, (c) lögreglustjórasátt vegna brots á almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fikniefni, (d) lögreglustjórasátt eða sektargerð tollstjóra vegna brots á öðrum lögum þegar sekt er 50.000 kr. eða hærri eða brot hefur leitt til réttinda- eða leyfissviptingar, (e) ákærufrestun.

    ————————-

    Gunný @ 21/06 00.06

    Setja Davíð af? Ja, þá mættu þeir margir fjúka. Er það þá leið mannfólksins til að fella dóma hvert yfir öðru, stærri og meiri en lagakrókurinn kveður á um? Fegin er ég að ég þarf ekki að lúta þeim lögum. Ég væri þá líklega á vergangi!

    ————————-

    Eva @ 22/06 22.03

    Mannfólkið fellir vissulega dóma hvert yfir öðru, stærri og fleiri en lagabókstafurinn sjálfur. Þessvegna er algengt í flestum siðmenntuðum samfélögum að ráðamenn og opinberir embættismenn sem gera sig seka um stór afglöp í starfi eða ósæmilega hegðun, segi af sér, einmitt vegna þess að almennt álit er að fólk í slíkum stöðum eigi ekki aðeins að hlýða lögum heldur líka að virða óskráðar siðareglur og forðast þannig það sem kallast spilling. Þetta viðhorf hefur ekki náð að festa rætur á Íslandi.

    ————————-

    Spúnkhildur @ 23/06 10.02

    Heyr heyr. Ég er algerlega á þeirri skoðun að þegar æðstu embættismenn þjóðarinnar fara yfir strik almenns velsæmis ættu þeir að segja af sér. Þetta fólk hefur áhrif á siðverðisvitund þjóðarinnar og hnignun almenns velsæmis má rekja til spillingar að nokkru leiti. Það læra þegnarnir sem fyrir þeim er haft… Heya Sverge..

Lokað er á athugasemdir.