Hátíðabúning fyrir konur

peysufötÞað eru þrír stórir gallar á íslensku þjóðbúningunum. Það er ferlegt vesen að klæða sig í suma þeirra, þeir eru of dýrir til að lenda á forgangslista meðalheimilis og hvað kvenbúningana varðar hafa þeir ekki fylgt tískunni. Ég hugsa t.d. að mörgum ungum konum þyki höfuðfötin sem fylgja þeim ekkert ýkt töff og sjálfsagt kysu margar að hafa pilsin dálítið aðsniðnari yfir mjaðmirnar.

Mér finnst hálfgerð synd hvað maður sér íslenska búninga sjaldan notaða. Forn menning á ekki bara heima á söfnum, það má alveg laga ýmsa þætti hennar nógu vel að nútímanum og virkja þá. Það var t.d. að mínu mati frábær hugmynd að hanna hátíðabúning fyrir karla. Karlabúningurinn fer vel við íslensku kvenbúningana og brúar bilið milli gamla íslenska búningsins og nútímalegs karlklæðnaðar. Hann er ekki ódýr en það er þó ekkert skautbúningverð á honum. Ég er ekki hissa þótt hann hafi öðlast vinsældir.

Væri ekki sniðugt verkefni fyrir einhvern smekklegan og frjóan fatahönnuð að setja fram hugmyndir um hátíðabúning kvenna, búning sem væri útlitslega skyldur einhverjum af íslensku búningunum en á viðráðanlegu verði, þannig úr garði gerður að hægt sé að komast í hann hjálparlaust og ekki með strumpahúfu eða pottloki sem þarf að festa með títuprjónum í flétturnar.