Uxar við ána

Þegar ég var lítil fannst mér Öxar við ána furðulegt kvæði og alls óviðeigandi að lúðrasveitin flytti það á jafn hátíðlegum degi og 17. júní.

Ég hélt að öxar væru uxar og sá fyrir mér uxahjörð að svala þorsta sínum í á, snemma að morgni. Rís þá ekki skyndilega upp þjóðlið og skipast í sveit. „Lið“ var í mínum huga safn skítakaraktera á unglingsaldri og þetta þjóðlið var greinilega morgunsvæft að eðlisfari en þó hafði einhverjum tekist að rífa það upp á rassgatinu og skipa því að drífa sig út í sveit. Sumarfríið náttúrulega löngu byrjað og ekki seinna vænna að koma liðinu í sveitina. Með beinni skipun, ekki dugðu vinsamleg tilmæli.

Nema hvað, þegar liðið loksins er komið í sveitina, þá fer það ekki að binda heybagga eða sinna uxunum við ána, heldur fer það í byssuleik með pappaflöggunum sínum (skjótum með fána). Augljóst var að liðið hefði langað meira að vera í bænum á 17. júní og veifa fánum.

Jæja, upp með blístrurnar og svo skunda öll vandræðabörnin úr borginni austur á Þingvöll. Þar sem ég vissi að það að „treysta heit sín“ merkti að standa við loforð sín, (gott ef ég spurði ekki sérstaklega um það þegar ég var að velta kvæðinu fyrir mér) hlaut það að þýða að þetta þjóðlið, götukrakkarnir úr bænum, hefðu lofað bót og betrun og ætluðu nú að fara á lappir á morgnana, hætta að reykja og yfirhöfuð að hegða sér eins og siðað fólk. Unglingagengið lofar þessu hátíðlega; fram fram aldrei að svíkja, en tekst þó ekki betur til en svo að liðið er ekki fyrr komið á Þingvöll en að það slær hring (tökum saman höndum) um aðra gesti á Þingvöllum, þjóðina sjálfa, efnir til einhverskonar keppni, og vinnur svo keppnina með því óþokkabragði að stríða keppinautunum.

Mikið fannst mér annars skáldið klikka illa á ástkæra, ylhýra í síðustu línunni, stríðum, vinnum vorri þjóð. Stríðum, vinnum vora þjóð, átti það auðvitað að vera. Líklega var þetta svona „skáldaleyfi“, svipað og höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg. Ég vissi auðvitað að það átti að vera vegi. En ég fyrirgaf skáldum málvillur öðrum fremur, því eitthvað var guðdómlegt við skáldskapinn, í það minnsta voru vegir hans órannsakanlegir.