Ljóð handa vegfaranda

Suma daga sit ég við stofugluggann og bíð eftir að þú gangir fram hjá.

Þú heldur að ég sé að horfa út um gluggann.
Kannski á hundinn nágrannans eða krakka með skólatöskur eða unglingana að reykja bak við sjoppuna.
Stundum veifar þú til mín og bregður fyrir litlu brosi. Kannski heldurðu að ég sé að horfa á þig og finnur dálítið til þín.Ég er reyndar að bíða eftir þér, já, en ég er ekki að beinlínis að horfa á þig. Ég er búin að því. Ég er meira að bíða eftir að þú horfir á mig. Nú þú. Það er réttlæti. Ég vil að þú horfir á mig. Ekki af því að ég eigi neina sérstaka drauma um þig heldur af því að þú átt leið hjá á heppilegum tíma og flestir aðrir eru á bíl. Horfa þessvegna aldrei á mig. Ungir menn eiga að horfa á fallegar stúlkur. Þannig hefur það alltaf verið segja þeir.

En þú horfir ekki heldur þótt þú farir þér hægt. Horfir aldrei beinlínis á mig. Lítur bara til mín í svip og gengur svo framhjá. Sperrtur eins og hani.

Einu sinni kallaði ég til þín af því ég sá að þú misstir veskið þitt. Þá stoppaðir þú og horfðir aðeins á mig, pínulítið. Ekki samt lengi. Þú sagðir takk. Svo bara fórstu.

Ég hélt að ég gæti kannski náð athygli þinni með því að sýna þér betur hvað ég er falleg. En nú, þegar ég sit nakin á svölunum er engu líkara en að þú forðist beinlínis að líta upp. Og ert hættur að veifa.

Mér er satt að segja að verða svolítið kalt.

Án orða

Hæglát læðist hugsun mín
hljóð sem kattarþófi
og engu leyna augu þín;
orð eru best í hófi.

Okkar litla leyndarmál
líkist spenntum boga.
Undir niðri eins og bál
ástríðurnar loga.

 

Morgunbæn

Svo morgnar um síðir
svo á jörðu sem á himni
því það er líparít
og það er stuðlaberg
og það er rauðamöl
og það ert þú.
Sett í skúffuna í mars 2003

 

Fjallið er kulnað

Þar sem áður brunnu eldar,
nógu heitir til að bræða grjót.
Þar sem glóandi hraunkvikan
varnaði nokkru lífi aðkomu
en vakti þó athygli
um stund,

þar er nú hraunskel nakin,
hrjúf og köld

og fjallið er kulnað.

Engin mosató er þér búin
í faðmi mér
en við rætur mínar
vaxa snjóblóm.

Sátt

Vinur, þegar vorið kveður,
vaka hjartans dularmál,
eins og tónn sem andann gleður
áttu stað í minni sál.

Þótt særð ég hafi í sorgum mínum
sakað þig um lygi og svik.
Finn ég enn í faðmi þínum
fullsælunnar augnablik.