Án orða

Hæglát læðist hugsun mín
hljóð sem kattarþófi
og engu leyna augu þín;
orð eru best í hófi.

Okkar litla leyndarmál
líkist spenntum boga.
Undir niðri eins og bál
ástríðurnar loga.

 

Orðjurt og auga

Við ljósamörk skáldkvöldsins skelfur eitt ljóð
sem skothending nátttíðar deyðir
mót auganu orðkrónu breiðir
sem óðjurt mót heiðsólarglóð.

En náttmáni skín bak við skýslæðutröf
við skuggamörk þokunnar sefur
og ljóðaugað líklæðum vefur
sem lifi við kveðstafa gröf.

Ljóstillífsljóð
lifir sem sáðjarðar gróður
fagnar við augnsólar yl
orðjurtin góð.

Kvæði handa skúffuskáldum

Í merkri bók er sagt að sönnum þyki
það sælla vera að gefa en að þiggja
en allar mínar sögur ennþá liggja
oní skúffu í haug og safna ryki.

Á meðan ég hef skúrað, skeint og þvegið,
skemmti ég mér við að binda í kvæði
líf mitt; sælu, sorgir ást og bræði
og síðan hefur það í möppum legið.

Ung ég þóttist undragáfu hafa
og áleit það sem telpukrakki dreyminn
að ættu ljóð mín erindi við heiminn
en eitthvað þóttist heimurinn í vafa;

það virtist enginn af þeim ýkja hrifinn
og hentug reyndist skúffan fyrir skrifin.

Biðlað til Eddu

Mín eina hjartans löngun um það snýst
að yrkja til að anda til að skrifa
og ekki hættir tímans úr að tifa
og tækifærum fjölgar allra síst.

Ef ekkert svar af söngli mínu hlýst
sem segir mér að ljóð mín megi lifa
ég sífellt mun á sama tóni klifa
uns sál þín greinir sandlóunnar tíst.

Í fjarskanum ég greini fljótsins drunur
er fjötra íssins brýtur vorsól hlý
þótt ljóð mitt beri lítinn vott um snilli

en hvort það verður meira en mynd og grunur
að mestu leyti veltur nú á því
sem lestu sjálfur línanna á milli.

Frestun

Ég veit það og skil fyrr en lúgan skellur
að skuldin í næstu viku fellur
en skelfingin bíður næsta dags.
Oft er frestur á illu bestur
því opna ég póstinn ekki strax.

En kvíðinn skín út um gulan glugga
grandar hann svefnsins friðarskugga
og geighús mitt lýsir allt um kring.
Í hug mér kúrir, sem hamstur í búri
og hleypur í vaxtavítahring.