Ástarvísur

Þér í örmum finn ég frið
fýsn þótt vekir mína.
Mér er ljúft að leika við
leyndarstaði þína.

Hárið rauða heillar mig
hálfu meir þótt kvekki
óttinn við að elska þig
ef þú vilt mig ekki.

Þegar haustar það ég skil
þig ég hlýt að missa.
Fram að því ég fegin vil
freknur þínar kyssa.

 

Vísur handa manninum sem átti ekki tíkall

Víst ég er í vanda stödd
viti firrt og láni
Fyrir þinni flauelsrödd
féll ég eins og kjáni.

Ótal konur elska þig
engri trúr þótt reynist.
Það er líkt um þær og mig,
þræll í hverri leynist.

Satinhörund, silkihár,
söngur hreinn og þýður.
Frjór í hugsun, fyndinn, klár,
frekjan í þér sýður.

Úávið þótt frjáls og fús
fegri eg þína bletti,
oft mér líður eins og mús
undir fjalaketti.

Hvað sem allri skynsemi líður

Enn mig getur girndin blekkt
hún gengur frá mér bráðum
mér var aldrei eiginlegt
að ansa hugans ráðum

því vanann skortir voðans yl
nú veit ég ekki bara,
hvað mig langar, hvað ég vil
né hvert ég er að fara.

Dýra lífsins drullumall!
Dró mig til þín leiðinn.
Fyrir rauðan rugludall
rauf ég skírlífseiðinn.

—-
Ekki finnst í orðasafni þínu,
tillitsemi, ábyrgð, tryggð
og trúlega ekki nokkur dyggð.
Mig langar víst til að rústa lífi mínu.

Kveðja til gæsabónda

Uppáhaldskennarinn minn í háskóla var athyglisverður fræðimaður og rómað kvennagull og var enginn meðvitaðri um það en hann sjálfur. Einhverju sinni hitti ég hann í fremur snobbuðu samkvæmi þar sem fagrar meyjar höfðu að venju safnast í kringum hann. Þegar ég óverðug náði loksins tali af goðinu tjáði hann mér í þreytulegum trúnaðartón að hann væri dauðþreyttur á þessum „gaggandi gæsahóp“ sem elti hann á röndum. Halda áfram að lesa

Vísur handa harmarunkurum

Mér hefur ástin aldrei fært
annað en sorg og kvíða
þjáð mig og kvalið, svikið, sært
og samt er ég enn að bíða.

Stundargleði gefa víst
greyin rétt á meðan
en þegar ég áföll þoli síst
þjóta þeir aftur héðan.

Einatt þann ég elska mest
sem á það síðast skilið
og finn svo annað fyrir rest
fífl, að brúa bilið.

Víst þú kæri kenndir mér
hverjum helst má treysta.
En hversu væn sem verð ég þér
þá vantar þennan neista.