Kveðja til gæsabónda

Uppáhaldskennarinn minn í háskóla var athyglisverður fræðimaður og rómað kvennagull og var enginn meðvitaðri um það en hann sjálfur. Einhverju sinni hitti ég hann í fremur snobbuðu samkvæmi þar sem fagrar meyjar höfðu að venju safnast í kringum hann. Þegar ég óverðug náði loksins tali af goðinu tjáði hann mér í þreytulegum trúnaðartón að hann væri dauðþreyttur á þessum „gaggandi gæsahóp“ sem elti hann á röndum.

Sannleikanum verður hver sárreiðastur enda hlaut ég sjálf að tilheyra hópi þeirra sem hann flokkaði sem gæsir. Gott ef ég gaggaði ekki bara gæsa hæst. Ekki gat ég þó betur séð en að hinn myndarlegi og dáði dósent kynni prýðilega við sig í félagsskap mínum og minna vinkvenna, allavega gerði hann enga tilraun til að ná tali af samkennurum sínum eða piltum í hópi stúdenta. Í hefndarskyni skrifaði ég eftirfarandi kvæðiskorn á serviettu og stakk í jakkavasann hans.

Háfleygra fugla ger
nú fagnar hér
og gæsahópurinn gengur á eftir þér,
gaggandi sperrum við stél
og stígum í vænginn
víst kanntu því vel!

Og eitt skaltu vita þinn álfur
að örn er það ekki
sem svífur guðdómnum næst
(því síður þú sjálfur)
í forsal vinda
og það máttu láta þér lynda
minn góði að gæsin
flýgur víst fugla hæst.