Hvísl

Gréstu í brjósti þér góði
er gafstu mér kost á
ást þinni umbúðalaust
af órofa trausti?
Leistu mig langsvelta þjást
og listina bresta?
Sástu hve návist þín nísti?
Naustu þess? Fraustu?

Víst er ég valdi þig fyrst
það veistu minn besti.
Haltu mér, leystu minn losta
og ljóstu með þjósti.
Kreistu að kverkum mér fast
og kysstu og þrýstu.
Veist að í hljóði ég verst
ef varirnar bærast.

Tvennd

Nautnin er kát.
Hlátrar úr lófunum streyma,
ljúfstríðir lokkarnir flæða.
Snertir mig augum.
Snertir mig eldmjúkum augum.

Sektin er þung.
Bitþöglir kaldkrepptir hnefar,
hnúturinn sígur við hnakkann.
Lítur mig augum.
Lítur mig íshörðum augum.

Gímaldin gerði lag við þetta kvæði og gaf út 2012.

Ljóð handa Mark Antony

Sláðu mig lostmjúkum lófum
svo lygnstríðir strengirnir hljómi.
Heftu mig fróandi fjötrum
svo friði mig vald þitt og veki
unaðshroll ofstopablíðan,
örvi til sársauka og sefi.
Mun ég í ljúfsárum losta
þér lúta og grátfegin gefast.

Mold

Köld vakir mold í myrkri
mildum hún höndum heldur
raka að heitum rótum.
Reyr mínar rætur
og vertu mér mold.

Spegilbrot

Spegilbrot – 1

Svala að sumri
svella við vetrarins kul
blár þinna brúna

Spegilbrot – 2

Lít eg þig augum
les þér úr hári og hug
örlagaþræði.

Spegilbrot – 3

Fjórleikur augna
orðalaus snerting við sál
faðmi þér fjarri.

Spegilbrot – 4

Hljóð hefur farið
dauða um hendur mér, köld
hvítmyrkurþoka.