Tvennd

Nautnin er kát.
Hlátrar úr lófunum streyma,
ljúfstríðir lokkarnir flæða.
Snertir mig augum.
Snertir mig eldmjúkum augum.

Sektin er þung.
Bitþöglir kaldkrepptir hnefar,
hnúturinn sígur við hnakkann.
Lítur mig augum.
Lítur mig íshörðum augum.

Gímaldin gerði lag við þetta kvæði og gaf út 2012.

Ljóð handa Mark Antony

Sláðu mig lostmjúkum lófum
svo lygnstríðir strengirnir hljómi.
Heftu mig fróandi fjötrum
svo friði mig vald þitt og veki
unaðshroll ofstopablíðan,
örvi til sársauka og sefi.
Mun ég í ljúfsárum losta
þér lúta og grátfegin gefast.

Mold

Köld vakir mold í myrkri
mildum hún höndum heldur
raka að heitum rótum.
Reyr mínar rætur
og vertu mér mold.

Spegilbrot

Spegilbrot – 1

Svala að sumri
svella við vetrarins kul
blár þinna brúna

Spegilbrot – 2

Lít eg þig augum
les þér úr hári og hug
örlagaþræði.

Spegilbrot – 3

Fjórleikur augna
orðalaus snerting við sál
faðmi þér fjarri.

Spegilbrot – 4

Hljóð hefur farið
dauða um hendur mér, köld
hvítmyrkurþoka.

Andhverfur á kvöldi

Kvakar þögn við kvöldsins ós.
Keikir myrkrið friðarljós.
Vekur svefninn vonarró.
Vermir jökull sanda.

Blakar lognið breiðum væng.
Bláa dregur kyrrðarsæng,
húmið yfir auðnarskóg,
eirir dauðum anda.