Kveðja til gæsabónda

Uppáhaldskennarinn minn í háskóla var athyglisverður fræðimaður og rómað kvennagull og var enginn meðvitaðri um það en hann sjálfur. Einhverju sinni hitti ég hann í fremur snobbuðu samkvæmi þar sem fagrar meyjar höfðu að venju safnast í kringum hann. Þegar ég óverðug náði loksins tali af goðinu tjáði hann mér í þreytulegum trúnaðartón að hann væri dauðþreyttur á þessum „gaggandi gæsahóp“ sem elti hann á röndum. Halda áfram að lesa

Lausn

1. Jakob

Víólan hefur vitund. Hún skynjar það sem býr í djúpinu og hún neyðir það til að brjótast fram. Djúpið býr yfir hundrað hættum. Þar býr skelfingin, þar býr ofsinn, þar býr líka ástin og fegurðin. Djúpið er ógnvænlegt. Ég skelfist það. Ég skelfist það vegna þess að ég ræð ekki við það. Ég næ ekki fram því sem best á við hverju sinni, ég get heldur ekki haldið því í skefjum þegar víólan ákveður annað. Ég óttast djúpið því ég ræð ekki við það; ég hata víóluna, því hún knýr það fram. Halda áfram að lesa

Vísur handa harmarunkurum

Mér hefur ástin aldrei fært
annað en sorg og kvíða
þjáð mig og kvalið, svikið, sært
og samt er ég enn að bíða.

Stundargleði gefa víst
greyin rétt á meðan
en þegar ég áföll þoli síst
þjóta þeir aftur héðan.

Einatt þann ég elska mest
sem á það síðast skilið
og finn svo annað fyrir rest
fífl, að brúa bilið.

Víst þú kæri kenndir mér
hverjum helst má treysta.
En hversu væn sem verð ég þér
þá vantar þennan neista.

 

Hökunornin

Einn daginn þegar ég leit í spegilinn að morgni, tók ég eftir því að hakan á mér hafði lengst. Í fyrstu var ég ekki viss, hélt að þetta væri kannski vitleysa í mér en þegar ég kom í vinnuna hafði samstarfsstúlka orð á því eitthvað væri einkennilegt við andlitið á mér. Ég hef alltaf verið talin snotur og þetta olli mér satt að segja áhyggjum. Halda áfram að lesa

Berfættir dagar

Ég hugsa til þorpsins
og minnist gamalla húsa
sem húktu hvert fyrir sig
svo tóm
niðri í fjörunni.

Og berfættra daga
með sand milli tánna
þegar glettnar smáöldur kysstu
blaut spor í sandinum.

Og ég hugsa til þín
og minnist
bláleitra ágústkvölda
sem veltust hlæjandi í grasinu
og hlupu svo burt
út í heiminn
og báru okkur burt
frá berfættum dögum
og bláleitum kvöldum
og hikandi fyrstu kossum
í handsmáu rökkrinu.