Trukkalessulagið

Mig langar ekki að anga eins og
lítið, veikt og ljósbleikt sumarblóm.
Með hárið sítt og fésið frítt
og silkiglans á sanseruðum skóm.
Þær mega leika píkubleikar tíkur fyrir mér.
Svo sætar að það veldur verk í kverkum.
En það er ekki þannig sem ég er.

Ég fíla þetta þvottabretti,
vöðvamassa, styrk og stæltan rass.
Því ég er svona kjarnakona,
stælakvendi, strákafæla og skass.
Ég örga grimmt og sigra þær sem megra og fegra sig.
Ég þóknast engum erkitýpuklerkum
sem vilja að normalformi fella mig.

Mér líður best í leðurvesti,
þekki mig með hlekki og hundaól.
Ég fíla brútal blætisstíl
og keðjudót, og keyri mótorhjól.
Mér finnst svo gott og flott að vera hot og hrottaleg.
Því mér er ætlað merki þeirra sterku,
mér fer svo vel að vera bara ég.

Harmóníulagið

Þetta kvæði lýsir lífsafstöðu leikfimigúrúsins

Ég boða yður innri frið
svo andið djúpt –já oní kvið.
Finnið hvernig friðsemdin
flæðir hrein um innyflin.
Teygðu þínum öngum á
og allri streitu vísa frá.
Hefst nú losun hugarkúks
Í harmóníu anda og búks.

#Létt er verk að losa þig við spikið.
En hamingju og hugarró
hreppirðu ef þú borgar nógu mikið.#

Ætlir þú að lifa létt,
lærðu þá að borða rétt:
Grænkáli í sig gúlla má
og gluða tófúi ofaná.
Baunamauk er best með því
það bætir lífsins harmóní
en mæjónes á veika vörn
það veldur ólgu í sál og görn.

Staðfast hjarta styrkjum við
Með stæltum vöðva og mjúkum lið
Átök spara aldrei skalt
því andinn græðir þúsundfalt.
Er þú lóðum lyftir hátt
losar þú um hugans mátt,
vér minnust bljúgir Mullers dans
með mjaðmasveiflu kærleikans.

Af hugareitri og sálarsótt
mun sjóðheitt blóðið hreinsast fljótt,
losum þannig líkamann
við lostann gegnum pungsvitann.
Á eftir skal svo anda í hring
og enda hjartans hreingerning
er sálarinnar samastað
sendum við í steypibað.

Hvatningarlagið

Helga er að æfa sig fyrir leikfimikeppni og vinkonur hennar hvetja hana.

Ása: Teygja, púla taka á
takmarkinu ef viltu ná.
Efla bæði þrek og þol
þjálfa leggi skut og bol.

Helga: Gengur hægt, hvað á ég að gera?
Ása: -nú gef ég þér stera.

Ása: Stelpu sterka höfum við.
Stöndum báðar þér við hlið.
Ef þú þolir ekki tap
efla skal þitt keppnisskap

Helga: Ef ég tapa, eflaust ég dæi.
Signý: -ert´ekki í lagi?

Helga: Hvernig verður keppnin sú?
Kannski alveg úr úr kú?
Ása: Öll hún fer á einhvern veg
Signý: -aldrei verri en ömurleg.

Helga: Hvað vantar svo ég vinni’essa keppni
Signý: -helvítis heppni

Ása: Ef þú þreytist þessu á
þokkalega mundu þá:
árangur er afstæður
Signý: -aldrei verri en afleitur.

Helga: Sæll mun verða sigursins losti
Signý: -hvað ætli´ann kosti?

Sælgætislagið

Þetta lag syngur skutlan í stykkinu þegar hún er að fríka út á heilsusamlegu líferni.

Hvað er svona æðislegt við endorfín?
að engjast um í krampakenndri mæði,
hlaupa, stökkva og svitna eins og svín,
ég súkkulaði miklu fremur þæði.

Pheny-la-la-nin
Phe-nyle-thy-la-min
það er betra en vatn og vítamín.

Karamella er betri en dóp og brennivín
og brjóstsykurinn örvar heilans flæði.
Á súkkulaði æpir sála mín
því sykurkikk ég fremur vímu þæði.

Pheny-la-la-nin
Phe-nyle-thy-la-min
það er betra en hass og heróín.

Mig langar ekki í skemmtun, hlátur, skaup og grín
og skammvinn nautn er klístruð svita og sæði
og oft er feikuð fullnægingin mín
ég fremur ekta súkkulaði þæði.

Pheny-la-la-nin
Phe-nyle-thy-la-min
er miklu betra en ástarbrögðin þín.

Stríðnilagið

Leikfimikeppni er framundan og keppinautarnir veitast að Marlyn, sætustelpunni sem ætlar að vinna.

Fríkin: Hún er bæði fim og fær,
fjórða sæti eflaust nær.
Skortir trú á sjálfri sér
sigrar aldrei, því er ver

Vonleysið er undirrót vandans
Marlín: -farðu til fjandans.

Fríkin: Fellur rétt að fyrirmynd
fullkomlega á það blind
að ef þú ekki ert þú sjálf
ánægjan er minna en hálf.

Helga: Helst ég vildi hella hana fulla
Marlín: -hættu að bulla.

Fríkin: Brosið engu bjargar nú,
barbídúkkur eins og þú,
úr plasti fjöldaframleiddar
fylla búðarhillurnar.

Helga: Ljúft mér þætti að láta henni hitna
Marlín: -fyrr skal ég fitna.