Landnemaljóð

Í leit minni að heimkynnum
hef ég sleppt bæði dúfum og hröfnum
sem alltaf sneru aftur
tómnefjuð
og enn rekur bát minn fyrir straumum.

Ég játa að ég treysti hröfnum betur en dúfum,
kann betur við ís og sand en ólívugreinar
og enginn flóttamaður er ég
heldur landnemi.

Ekki veit ég
hvort hrafnar sveima
yfir fjallinu hvíta í austrinu
en hitt hef ég séð;
atað dúfnasaur
er torg hins himneska friðar.

Sprungur

Hversu lengi hef ég setið og starað á vegginn í stofunni? Ég veit það upp á mínútu en þær mínútur hafa liðið hægar en mínútur gera almennt. Það er svosem ekki mikið að sjá á þessum vegg, nema þá sprunguna eftir jarðskjálftann í fyrra. Hún hefur stækkað og gliðnað og nýjar sprungur og grynnri liggja út frá henni. Breiðast líkt örtstækkandi kógulóarvef frá miðjunni, yfir vegginn allan, allt niður að gólfi og uppundir loft. Merkilegt að veggurinn skyldi fyrst springa í miðjunni. Rétt eins himininn hafi þrýst á móti þegar jörðin tók að titra undir fótum mínum. Hversu langt ætli sé þar til veggurinn hreinlega gefur sig og hrynur yfir stofuna mína? Halda áfram að lesa

Leikfimilagið

Finnst þér ýkt og ógeðslegt að vera fituhlass
og hlunkast um með hnakkaspikið lafandi oná rass
með siginn barm og undirhakan hristist er þú hlærð
og engar búðir selja föt í fílastærð.
Ef sætur strákur lítur á þig strax hann sér
að rassinn hvílir kekkjóttur á hælum þér.
Þeir líkja þér við hráan lifrarpylsukepp,
feita gyltu, flóðhest eða myglusvepp.

Finnst þér lítið kúl að vera karlmaður með brjóst
og ömurlegat að vita að það sé lýðnum ljóst
að langtum betra úthald hefur sjötug amma þín
sem myndi fyrir skvapið á þér skammast sín.
Með upphandleggjaspírur líkt og Óli Skans
og kokteilsósan rennur um þinn æðakrans.
Þú veist að stelpur ræða um þig sem rúmmetrann
og fellingarnar hylja á þér félagann.

Jón Hallur Stefánsson samdi einnig lag við þetta kvæði vorið 2010. Diskurinn er enn ekki kominn út.

Sótthreinsunarlagið

Eddi á að sjá til þess að fulltrúi heilbrigðiseftirlitsins finni enga sýkla. Hann finnur lausnina á internetinu.

Eddi er með upplýsingatæknina á hreinu
og er nú búinn að finna ráð við vandamáli einu
hann komst að því að ótrúlegar upphæðir þið getið
sparað, ef þið eruð klár og notið internetið.

Með maurasýru, kvikasilfri og klór
kælilegi og slatta af stýflueyði,
vítissóda, bónleysi og bór,
bremsuvökva og smurolíuseyði,
ég garantera að sýklafárið sjatni,
og bæti í til öryggis,
brennsluspritti, frostlegi og flösku af sódavatni.

Lýtaaðgerðalagið

Ég ætla mér að finna lýtalækni
sem lagar helstu gallana á mér
hann af mér síða augnpokana sker
og loðna leggi fixar hann með leysertækni.
Hann smækkar útstæð eyru mín
og nefið langt og ljótt
og rífur úr mér rifbein
svo að mittið verði mjótt.
Hann spengir á mér tennurnar og spik úr lærum sýgur
hann klippir, sker og flakar þar ístran af mér flýgur.

Hann brjóst mitt sælu og silikoni fyllir.
Hann setur á mig Brasilíuvax
og stækkar síðan varir mínar strax.
Er eldist ég, mitt bótox-enni alla villir.
Hann skrapar burt minn skúffukjaft
og mjaðmabeinið breitt
og galdralyf hans geta
öllum gelgjubólum eytt.
Í grindarbotninn krukkar svo mér gefist þrengri píka
(Hallgerður:) „en neyðarlegt ef gæinn léti stækka vininn líka“.

Ég ætla góðan lýtalækni að finna
sem lagar helstu gallana á mér
þá verð ég loksins önnur en ég er
því engu hef ég enn að tapa en allt að vinna.