Ljóð handa Hlina

Konungsson hvert ertu að fara?
hvers viltu leita?
Hvert mun nú rekkja þín renna?
rökkvar í skógi.
Blíðlega sungu þér svanir
svefnhöfgi þunga.

Skar ég þér línur í lófa
ljáði þér tauminn.
Blóð þitt á böndunum þornað
blárra en augun þín græn.

Saga handa prinsessunni sem er með hinn fullkoma kjól á heilanum

Einu sinni var prinsessa. Hún var galin. Hún var með kjóla á heilanum og stór hluti dagsins fór í að skoða kjóla, máta kjóla, afskrifa kjóla sem henni líkuðu ekki, reyna að þröngva kjólum sem hún var hrifin af en pössuðu henni ekki upp á systur sínar og reyna að fá saumakonu hirðarinnar til að breyta kjólum þannig að þeir féllu henni betur í geð. Og það var ekki nóg með að hún væri með kjóla á heilanum, hún hafði líka svo hörmulegan smekk og hún gerði sér m.a.s. grein fyrir því sjálf og klæddist þessvegna sjaldan því sem hún helst hefði viljað þótt hún gæti auðveldlega fengið allt sem hún benti á. Halda áfram að lesa

Saga handa marbendli

Einu sinni var marbendill einn hláturmildur. Marbendill þessi var ákaflega höfuðstór eins og títt er um marbendla. Taldi hann sjálfur að höfuðstærð hans væri til marks um óvenjulegt innsæi og þóttist hann jafnan kunna skil á þeim kátlegu hvötum sem lágu að baki flestum mannanna gjörðum. Þótti honum fádæma fyndið þegar hann sá kokkála fagna eiginkonum sínum, bændur sparka í hunda sem hlupu gjammandi á eftir bílum þeirra og ferðamenn bölva féþúfum þegar þeir hnutu um þær af tilviljun. Halda áfram að lesa

Tengsl

Hún átti það til að standa óþægilega nálægt honum í strætóskýlinu jafnvel þótt þau væru þar bara tvö. Hann hafði á tilfinningunni að hún biði hans á hverjum morgni og þegar hann nálgaðist horfði hún beint í augu hans og brosti. Hún gekk aldrei neitt lengra en það en hann kveið því samt að hitta hana. Lengi vel lét hann sem hann sæi hana ekki.

Dag nokkurn kom þó að því að hann brosti hann á móti. Það var ekki stórt og geislandi fagnaðarbros, ekki beinlínis hlýlegt heldur. Hann gaf sig ekki á tal við hana, heldur kinkaði bara kolli og brosti sem snöggvast út í annað.

En þótt það væri bara örstutt bros náði það samt til augnanna og það gladdi hana ákaflega mikið.