Erfðaskrá

Að mér látinni veistu
að enn áttu hug minn og hönd
og hjartafylli af minningum,
góðum og slæmum
skal dreift milli vina og ættingja
yfir moldun.

Leggðu áhyggjur þínar á brjóst mitt
og ég tek þær með mér í gröfina.
Bros mín gefin og þegin skil ég eftir
en tár mín ógrátin
hef ég ánafnað Landsvirkjun.

Slydda

Kalt og blautt
og beint í andlitið.
Er einhver í geðillskukasti þarna uppi?
Fyrr má nú vera veðrið!
Annað en í minni sveit,
þar var alltaf sumar og sól.
(Nema stundum, en það er önnur saga.)

Nei, ég segi það satt,
þetta er ekki ásættanleg framkoma.
Það hljóta að vera borgarenglar
sem hrækja svona
í andlitið á saklausu fólki.

Pervasjón

Strýkur gullnum lokk
við stælta vöðva malbiksstráksins,
sleikir vetrarhrím af hörundi hans
allt niður að buxnastrengnum.

Andar undir stuttkjól stelpu
sem gengur hjá.

Andartak mætast augu þeirra;
blístur og bros,
í þeirri óbifanlegu trú
að pervafuglinn
búi í hormónahreiðri bak við augun.

Söngur þakrennunnar

Þegar ég var barn
söng þakrennan í vindinum.

Á daginn kátt og klingjandi
-þá voru álfar á ferli.
Um nætur djúpt og dapurlega
-þá riðu draugar húsum.
Regnvatnið rann niður glufur
í ryðguðu rörinu
og lék undir þann söng.

Dag nokkurn gerði mikinn storm
og þakrennan hrundi niður.
Það gerði ekkert til,
hún var hvort eð var búin að gegna sínu hlutverki.

Og söng ekki framar.

Ný renna kom í hennar stað.
Heil og gljáandi,
beindi regnvatninu aðeins eina leið.
Hina réttu leið.
Og söng ekki.

Þann dag voru fjöllin hnípin
og vöfðu grá sjölin
fastar að herðum sér.